Færsluflokkur: Bloggar
7.8.2007 | 20:15
Kötturinn vann. Gott heimili óskast fyrir naggrís.
Undanfarna mánuði hefur naggrísinn Ástríkur Skúli Svansson búið hjá okkur í Öldunni. Þetta væri kannski ekki í frásögu færandi ef Kúra Jónína, virðurleg en ættlaus kisa, ætti ekki líka heimili hjá okkur. Auðvitað var það óðrar konu æði að ætla þeim að búa saman því eðli kisu er að langa ósköp mikið að smakka aðeins á naggrísum. Hún þykist þó alveg virða að hann er vinur okkar og sýnir honum fálæti þegar við sjáum. En um leið og við erum farin úr augsýn leggst hún hjá eða á búrið hans og potar smá. Sum kvöld lætur hún sér nægja að fylgjast með hverri hans hreyfingu. Þó blessað nagdýrið sé með stáltaugar er víst ekki hægt að ætlast til þess að það eigi áhyggjulaust ævikvöld búandi með rándýri. Við höfum ekki þorað á láta á það reyna hvort hún ætlar bara að þrífa garminn á bak við eyrun eða éta hann. Því geta börnin ekki leyft Ástríki að leika lausum hala nema tryggt sé að Kúra sé úti.
Það varð því úr að bjóða blessað kvikindið til sölu. Hálfs árs naggrís mórauður og gulur með hanakamb í stóru búri bíður eftir nýrri og betri fjölskyldu. Einungs góð fjölskylda kemur til greina, gjarnan barnafjölskylda en síður kattaheimili. Ástríkur blessaður hefur fengið sig full saddan af sambýli við ketti. Hann langar aftur á móti til að kúra hjá góðum krakka af og til, milli þess sem hann unir sér í sínu búri við át. Best þykir honum auðvitað salat og annað nýmeti en hann lætur sér vel líka við þurrfæði. Ef vatnið klárast kvakar hann þar til einhver kemur og bæti úr. Það er von mín að einhvern vanti einmitt gæludýr af viðráðanlegri stærð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.7.2007 | 15:15
Töffarar á traktor
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.7.2007 | 20:22
Leitin að ljótasta orðinu.......í boltanum
Ég hef ákveðið að hefja hér með leitina að ljótasta orðinu eða orðasambandinu sem heyrst hefur í fótboltaleik á Íslandi. Stundum fær kona flugu í höfuðið en í þetta sinn fékk ég tvær. Tvær sem runnu saman í eina. Hún Anna Ólafsdóttir Björnsson tölvunörd með fleiru er þessa dagana að leita að fallegasta orðinu í Íslenskri tungu, sem mér finnst frábær og jákvæð hugmynd. Raunar stakk ég upp á orðinu þoka, sem mér vitanlega hefur ekki fengið neitt atkvæði, en það er önnur saga. Hin flugan hefur verið að suða í kollinum á mér, allt síðan ÍA og Keflavík gerðu lítið úr fótboltanum með ótrúlegri framsögu um daginn. Síðan hafa borist nær daglegar fréttir af fúkyrðum og dónaskap leikmanna og áhorfenda á fótboltaleikjum.
Sjálfsagt mun sumum finnast þetta smánarlegt uppátæki hjá mér að ætla að safna saman ósómanum og vekja þannig athygli á því sem ég vil kalla eina mestu skömm æskulýðsmála á Íslandi. Það er umhugsunar vert, að bæjarfélög og ríkið styðji við bakið á Íþróttafélögum, sem rækta upp dóna og bullur. Með því áð láta það liggja milli hluta þegar börn og fullorðnir úthúða andstæðingnum eða dómaranum er verið að samþiggja svona framkomu. Með því að afsaka vitleysuna með því að allt geti gerst í svo kölluðum hita leiksins, er verið að kenna krökkum að það sé eðlilegt að fá útrás fyrir vonbrigði og reiði með dónaskap
Viljum við hafa þetta svona eða viljum við taka í taumana?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.7.2007 | 11:19
Mig langar ekki á útsölu
Þessa dagana hellast yfir okkur auglýsingar um útsölur og tilboð, hvar kona á víst að geta gert ótrúlega góð kaup. Þrjátíu prósent hér, sextíu prósent þar, allt á þúsund eða tvær flíkur fyrir eina. Ég væri að ljúga ef ég segði að þessar auglýsingar hefðu engin áhrif á mig, en líklega ekki þau áhrif sem til er ætlast. Ég fyllist leiða og skömm. Langar ekki vitund að gera öll þessi góðu kaup. Stundum held ég að allir í kring um mig séu orðnir snældu snar galnir. Raunar hefur það líka hvarfað að mér að það sé ég sem er orðin galin en ekki allir hinir. Skiptir annars nokkru máli hvað við eigum mikið af fötum við notum hvort sem er oftast þessi sömu. Þessi þægilegustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.7.2007 | 15:38
Að breyta víni í vatn
Ég heyrði svo ótúrlega skemmtilega sögu úr skemmtanabransanum áðan að ég verð að deila henni með ykkur. Það gerðist nýlega að kollegi okkar Gumma lenti í smá brasi með leyfin sín. Það sem ég á við er að ónefndan skemmtistað í ónefndum bæ á landsbyggðinni skorti vínveitingaleyfi. Eins og upplýstir lesendur vita þá þýðir þetta auðvitað að ekki mátti selja áfengi, en alvöru víkingar láta slíkt ekki stoppa sig. Og Það verður að segjast alveg eins og er að vertinn beitti lævísri hugkvæmni til að selja vínið sem ananassafa eða kók. Öllu var skellt í glös og gestir og gangandi upplýstir um að innihaldið væri óáfengt, eða þannig, í það minnsta óáfengt ef löggan spyrði. Til að hinn langi armur laganna næði ekki að standa barþjónana að verki var einn hafður á verði fyrir utan til að vara hina við ef löggurnar nálguðust. Það var eins og að vera í Star Trek þætti að sjá barþjónana með handfrjálsan búnað til að vera í sambandi við varðmanninn. Löggan kom og löggan fór, þeir gátu ekki fundið muninn. Ég vil gefa þessu uppátæki vertsins þrjár stjörnur, eina fyrir hugkvæmni, eina fyrir þor og eina fyrir að breyta víni í vatn.
Bloggar | Breytt 18.7.2007 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í haust hyggst Fox að svara þessari spurningu með enn einum raunveruleikaþættinum. Eftir því sem mér skilst þá mun hópur af vel menntuðum, sterkum og sjálfstæðum konum sem eru orðnar leiðar á ofríki karla hér í heimi fá tækifæri til að stjórna. Karlarnir munu ekki fá neinu ráðið og eiga að hlýða konunum í einu og öllu 24/7. Auðvitað verður svo einn karl sendur heim í hverri viku.
Þetta er athyglisvert uppátæki og gæti ef vel er að málum staðið opnað augu margra sem ekki sjá neitt kynjamisrétti. Hitt er þó líklegra að fólkinu bæði körlum og konum verði att saman og niðurstaðan verði sú að konur séu ömurlegir stjórnendur og að karlar geti ekki tekið við skipunum frá konu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2007 | 11:09
Það er brostið á leikhús um allan bæ
Nú stendur yfir á Ísafirði einleikjahátíðin Act Alone, fyrir tilstuðlan hins ofvirka leikara Elvars Loga Hannessonar og það kostar ekkert inn. Hér í bænum ríkir frábær stemning og menn og konur geta átt það til að bresta í leik hvar sem er. Rétt eins og þegar leikarar í Bollywood myndum bresta í söng og dans. Fjörið byrjaði á miðvikudaginn hátíðin var sett í Alþýðuhúsinu með hinni ágætu heimildarmynd Leikur einn sem Jóhannes Jónsson hjá digi Film framleiddi. Í myndinni er fjallað um þessa alþjóðlegu einleikjahátíð og um einleik sem slíkan. Þar á eftir sá ég tvo stutta einleiki í Hömrum. Nefndarformaðurinn í Mannanafnanefnd og Álitsgjafinn héldu okkur í hláturskasti allan tímann. Einhverjir í hópnum enduðu kvöldið á Langa Manga, enda bjórinn þar á kaupfélagsverði fyrir þá gesti sem mæta í grænum Act Alone bol eða með merki hátíðarinnar. Allt í einu klappaði Elvar Logi saman höndum og hrópaði. Leikrit. Leikrit. Það skipti engum togum að tveir gestanna fóru með lítinn leikþátt. Vakti þetta uppátæki mikla kátínu viðstaddra. Því miður hef ég ekki haft tíma til að sjá öll leikritin en í gærkvöldi sá ég The secret face í Edinborg. Á sviðinu mátti sjá allt það helsta sem þarf í góðri tilveru, rólu, fartölvu, þúfu og foss. Þetta var hin besta skemmtun þó fossinn hafi stundum yfirgnæft hvíslið en ástfangna konan hélt mér bergnuminni allan tímann.
Hátíðinni er hvergi nærri lokið og vil ég hvetja alla til að kíkja í leikhús. Það er eitthvað alveg sérstakt við nándina í leikhúsi og ég er ekki frá því að hún sé áhrifaríkari þegar leikarinn er einn á sviðinu. Það er svo einkennilegt að það er ekki fyrr en kona situr í leikhúsinu á sýningu að hún fattar hve sjónvarpið er dauður miðill miðað við leikhúsið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.6.2007 | 13:57
19. júní á Langa Manga
Í tilefni að 19. júní verður opnuð sýning á nokkrum verkum eftir konur á Langa Manga á Ísafirði. Um er að ræða gamlar útsaumaðar myndir. Handavinna kvenna hefur ekki verið sérlega hátt skrifuð í gegn um tíðina og stundum verið litið á verk kvenna sem eitthvað dútl til að drepa tímann. Það er löngu tímabært að gefa þessum listavekum gaum og þeim konum sem unnu þau þá virðingu sem þær eiga skilið.
Í sögu Íslands, og alls heimsins ef út í það er farið, sem lesa má um í sögubókum er lítið skrifað um verk kvenna. Konur eru næstum ósýnilegar og verk þeirra hafa ekki þótt nægilega merkileg til að um þau sé fjallað, sagan er saga karlmannlegra afreka. Saga um stöður og landvinninga. Sagan er ekki saga alþýðunnar og ekki saga hins daglega lífs. Hvernig er staðan í dag? Ef sagnfræðingar framtíðirnar nota fjölmiðla dagsins í dag til að rannsaka daglegt líf þjóðarinnar er fjarvera kvenna enn áberandi. Vonandi verður breyting þarna á því við konur erum helmingur þjóðarinnar og helmingur mannkyns. Dútl karla við útvalsvísitölur er ekkert merkilegra en dútl kvenna við kennslu, eða hvað?
Fyrir þá örfáu sem ekki vita hvað er svona merkilegt við þennan dag er rétt að benda á að 19. júní halda konur á Íslandi hátíðlegan því á þessum degi fyrir 87 árum fengu konur á Íslandi kosningarétt og kjörgengi á við karla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.6.2007 | 12:15
Allabaddarí fransí, koppur undir rúmi til að pissa í
Ég fékk skemmtilega sendingu með póstinum áðan. Í nýjasta tölublaði franska tímaritsins Philosophie er fjallað um viðburðinn Óbeislaða fegurð sem við stóðum fyrir í apríl. Þau voru svo væn að senda mér eintak og blaðsíðu 14 er mynd af Ástu Dóru sem hvar svo heppin að hljóta titilinn óbeisluð fegurð 2007.
Það er liðinn nokkur tími frá því að blaðamaður þessa tímarits hafði samband við mig og ég man satt að segja ekki alveg hvað okkur fór á milli. Ég hef því ekki hugmynd um hvað stendur í greininni og ekki var ég heldur neinu nær við lestur blaðsins. Frönskukunnáttu minni hefur ekkert farið fram síðan pabbi kenndi mer í gamla daga það sem ég trúið þá að væri franska og er einhvern veginn svona "Allabaddarí fransí, koppur undir rúmi til að pissa í" Nú þarf ég bara að finna einhvern sem getur snarað greininni á Íslensku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.6.2007 | 13:58
Að keyra hratt eða ekki
Að keyra hratt er gaman, það finnst mér í það minnsta. Ég hef í gegn um tíðina vanið mig á að gefa svolítið í úti á þjóðvegum landsins en innan bæjar held ég mig á löglegum hraða. Ég hef alveg vitað að þetta er bannað og að þetta er bannað vegna þess að þetta er hættulegt og að ég hef minni stjórn á bílnum. Síðast en ekki síst hef ég alltaf vitað að ég ætti að venja mig af þessu.
Það var núna um daginn að ég var á leiðinn heim til Ísafjarðar frá Reykjavík. Eins og oft áður varð bensínfóturinn eitthvað þungur, þó ekki hafi verið um neinn ofsaakstur að ræða. Þegar komið var upp á miðja Steingrímsfjarðarheiðina mundi að ég hafði ætlað að taka bensín á Hólmavík. Árans tjón, það var annað hvort að snúa við og sækja bensín eða taka upp sparakstur. Auðvitað snýr kona ekkert við, það er gegn lögmálinu. Aflið sem togar mann heim er sterkt jafnt hjá okkur mannfólkinu og dýrunum. Ekki hefði t.d. mikið þýtt fyrir mig að snúa henni Gránu og hinum kúnum við í Alviðru í gamla daga þegar ég sótti kýrnar í haga. En það er önnur saga. Nei, á heimleið snýr maður ekki við. Sparakstur varð fyrir valinu. Ég gætti að því að fara aldrei yfir 90 og hélt snúningshraðanum í 2500 til 3000. Þetta var ekki auðvelt, satt að segja fann ég fyrir miklum fiðringi alla leiðina niður af heiðinni og langleiðina inn í botn á Ísafirði. Þá fór þetta að venjast og þegar ég var komin aðeins lengra var ég farin að njóta akstursins, axlirnar farnar að síga, takið farið að losna á stýrinu. Mikið var þægilegt að keyra svona rólega, algjör slökun.
Bensínið dugði og þessi reynsla hefur kennt mér að mér liggur ekki svona á. Tíminn sem við græðum með því að stelast til að keyra aðeins of hratt er ekkert græddur. Í hvað notar kona þann grædda tíma? Ekkert sérstakt í flestum tilfellum. Enda eigum við öll 24 tíma í sólarhring og sjálfsagt að gera sem best úr þeim öllum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)