Færsluflokkur: Bloggar

Fangagisting.

Nýlega skrapp ég til borgar óttans með fjölskyldunni.  Það er alltaf góð tilfinning að koma til Reykjavíkur, sérstaklega í miðbæinn.  Svona eins og að koma í heimsókn til fullorðinnar uppáhalds frænku.  Allt svo kunnuglegt, sumt frábært og annað ekki svo frábært.  Að vanda grét veðurstofan af gleði og lognið í Reykjavík var á mikilli siglingu. 

Það sem upp úr stendur í þessari ferð var þó hvorki veður eða færð, hvað þá sífellt þyngri umferð í borginni eða nýjasta hipp og kúl miðbæjarins, heldur Borgarfjörðurinn.  Eins og margir hef ég komið þangað oftar en ég hef tölu á, en sjaldnast stoppað og litið í kring um mig, hvað þá farið út úr bílnum nema þá rétt til að taka bensín.  Nú bar svo við að ég og fjölskyldan gistum eina nótt í Borgafirðinum á leið okkar suður.  Við sérstakar aðstæður verð ég að segja. Í ágætu húsi sem ég hirði ekki um að nafngreina frekar, en ég frétti seinna að það hýsti nokkra kræfa drauga.  Hvort sem það voru nú draugarnir eða hugsunarleysi okkar og gestgjafanna fór það svo, að þegar við ætluðum út í Bogrfirskt vorið með blámistri og hlýju um morguninn komumst við hvergi. Við vorum læst inni.  Í þessu ágæta húsi hagaði svo til að lykla þurfti til að opna allar dyr bæði að innan og utan.   Ný voru góð ráð dýr, eftir að hafa leitað að lykli um allt hús, gáfumst við upp. Hringdum í gestgjafana og báðum þá endilega að koma og hleypa okkur út.   Til að gera málið aðeins dramatískara skrifuðum við hjálp og sos stórum stöfum á blað sem við settum út í gluggann sem snéri að þjóðveginum. Enginn stoppaði, kannski sást hjálparbeðin ekki nógu vel frá veginum, kannski var öllum sama.  Á endanum var okkur þó bjargað þegar gestgjafarnir renndu í hlað með koddafarið enn í andlitinu og stírurnar í augunum. Komu með það mikilvægasta, lykilinn að húsinu.

Þetta var skemmtilegt ævintýri og við hlógum mikið bæði innilokuð og seinna.  Það verður samt að viðurkennast að þó við höfum haft það fínt í vistinni, og þó við vissum að lykillinn væri á leiðinni var okkur innst inni ekki alveg sama.  Við gistum ekki í heimleiðinni.

 


Klappað fyrir Þorsteini og Guði

Ég fór á tónleika með öðlingnum Þorseini Hauki Þorsteinssyni í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi.  Kammerkórinn, Kristín Lilja Kjartansdóttir og Guðrún Jónsdóttir sungu með Hauki og við góðar undirtektir tónleikagesta enda tónleikarnir hinir ágætustu og náði kórinn að framkalla gæsahúð, jafnvel á forhertustu rokkaðdáendum eins og undirritaðri. 

Það var þó ekki tónlistin sem var mér efst í huga þegar ég gekk út úr kirkjunni í lognið og blíðuna heldur var það tvennt sem sat í huga mér.  Framan á predikunarstólnum í kirkjunni er rauður dúkur með gylltri mynd.  Þar sem ég sat, lét hugann reika og naut tónlistarinnar fór ég að horfa á þessa mynd og spá í hana.  Myndin er af fugli á flugi, líklega dúfu með geislabaug, eftir því sem ég mér sýndist.  Ég skal játa að ég er ekki vel að mér í trúarlegum táknum en fannst samt skrítið að höfuð fuglsins snýr niður.  Þ.e.a.s. það var sem fuglinn væri að fljúga niður í gólf með geislabaug og allt.  Kannski á þetta að vera svona eða kannski var einhver að flýta sér, ég spurði nokkra tónleikagesti um málið en var bara klappað góðlátlega á öxlina, svona þú ert nú alltaf jafn skrítin að vera að spá í svona hluti.  Innst inni langar mig að vita hvort heilagur andi á að vera á uppleið eða niðurleið.

Hitt sem ég hugsaði mikið um og er enn að melta er nokkuð sem sr. Valdimar sagði eftir að hafa lesið faðir vorið á latínu.  Hann fór fögrum orðum um Þorstein Hauk og þakkaði Guði fyrir vináttu þeirra. Hann lauk ræðu sinni með svalasta hóli sem ég hef heyrt lengi þegar hann bað okkur að klappa fyrir þeim báðum, Þorsteini og Guði.


Veður er hugarfar.

Mikið hefur verið skrafað og skrifað um veðrið undanfarið.  Flest fólk er á því að það sé afleitt og miklu verra en við eigum skilið.  Annað er rasandi hissa á öllum kuldanum og telur veðrið sanna að nú sé allt að fara til fjandans.  Nokkrir veðurnördar reyna að svo hefja umræðuna á fræðilegra plan og útskýra fyrir okkur hinum að veðrið sé bara eins og búast má við á þessum árstíma.  Máli sínu til stuðning vitna þau gjarnan í gögn um veður undanfarinna ára.

Ég er ein af þeim sem man ekki veður frá ári til árs og missi heyrn þegar veðurfréttirnar byrja.  Hvort þetta tengis því að hafa sem barn þurft að þegja og vera prúð þegar veðrufréttirnar voru sagðar í útvarpinu skal ósagt látið. Veðrið kemur mér því sífellt á óvart.  Stundum skemmtilega og stundum leiðinlega.  Þetta er samt ágætt kerfi því það gerir mér auðveldara að láta sem mér sé sama hvernig veðrið er.  Enda á ég föt við hæfi hvernig sem viðrar. 

Ég er á því að við ættum að hætta að tala svona illa um veðrið.  Við tautum um vont verður þegar við ættum í raun að tala um að við séum illa klædd eða ekki klædd eftir veðri. Hvernig væri nú að hugsa um öll veður sem góð, fara í glaðlega gúmmískó í rigningunni og djúpvitra dúnúlpu í snjókomu. Því ein og konan sagði, málið er ekki hvað þú getur heldur hvað þú gerir.


Síðasta reykhelgin á Langa Manga.

Nokkrir vinir mínir sem þykir gott að hanga á Langa vöktu athygli mína á því að komandi helgi er síðasta reykingarhelgin.  Þá eiga þeir við að þetta er síðasta helgin sem reykingar verða leyfðar á veitingastöðum hér á landi.  Fróðlegt verður að sjá hvort reykliðar reykja óvenju mikið að skilnaði en eitt er víst að Gummi Hjalta ætlar að syngja og spila um reyk, munu þá væntanlega heyrast lög eins og ...smoke on the water og ...smoke gets in your eyes og ekki má gleyma þessum íslensku, ...fáðu þér smók og sopa af kók og ...í bláum skugga svo einhver séu nefnd.  Ég þori ekki að lofa það hann endi prógrammið með ...það er algjör vitleysa að reykja... 

Grínlaust, þá verður þetta mikil breyting fyrir reykingarfólk og ég finn svolítið til með þeim.  Ég var nú einu sinni reykingarkona. Sérstaklega verður þetta þeim erfitt ef veðrið fer ekki að batna.  Sumir hafa spáð því að reykingarfólk hætti að stunda kaffihús og bari en ég held að svo verði ekki.  Það er í það minnsta ekki reynsla annarra þjóða sem sett hafa á sambærilegt reykingarbann.  Auðvitað verður fólk í vandræðum með hendurnar á sér og hver veit nema hægt verði að grípa í  heklunál eða prjóna á Langa Manga eftir breytingarnar.  Það væri margt vitlausara en að koma fyrir garnkörfu við hliðin á blaðakörfunni.  Þá gætu reykingarmenn og konur prjóna sér trefla og húfur til að nota þegar kalt er úti. 


Heppin að eiga alvöru miðbæ.

Alveg frá því ég kom fyrst til Ísafjarðar hef ég hugsað með mér hvað við erum heppin að eiga alvöru miðbæ.  Á ferðum mínum um landið hef ég tekið eftir því að þetta er frekar undantekning en regla.  Þó skipulagið hjá okkur sé það gott að við þurfum ekki að búa til miðbæ þá þarf að gæta að stemningunni, góð miðbæjarstemning kemur ekki að sjálfu sér.  Hana þarf að rækta.

Það er því mikið fagnaðarefni að í dag voru stofnuð Miðbæjarsamtök Ísafjarðar. Hátt í þrjátíu konur og karlar mættu á stofnfundinn fyrir hönd verslana og þjónustufyrirtækja á eyrinni á Ísafirði. Markmið og tilgangur félagsins eru eftirfarandi. 

Að vera málsvari hagsmunaaðila í verslun, viðskiptum, veitingasölu og þjónustu á svæðinu auk annarra aðila sem hafa hagsmuna að gæta.

Að vera málsvari hagsmunaaðila í skipulags- og umferðamálum og  öðrum málum sem snúa að Ísafjaðrabæ og öðrum opinberum aðilum.

Beita sér fyrir opinberum umræðum og  aðgerðum í þessum málum, ef og þegar á þarf að halda, félagsmönnum til hagsbóta.

Að standa fyrir sameiginlegri og aukinni markaðssetningu og kynningu á þeirri starfsemi sem fer fram á eyrinni með þjónustu við ferðamenn og íbúa í huga í ört vaxandi samkeppni við aðra landshluta.  Vekja athygli á miðbæ Ísafjarðar, sögu hans, menningu og athafnalífi.

Stjórn félagsins var kosin í dag, auk mín eru þar Sigríður Sigurjónsdóttir, Gísli Úlfarsson, Ólöf Hildur Gísladóttir og Steingrímur Guðmundsson.  Það verður gaman að vinna með þessu kraftmikla fólki enda spennandi verkefni eru fram undan við að efla starfsemina í miðbænum okkar.  Fegra, snyrta og endurlífga í samstarfi við hvern þann sem lagt getur málinu lið.  Ég heiti á alla áhugasama að senda okur póst á netfangið midbaer@snerpa.is með hugmyndir og ábendingar.

 

 

 


Ný ríkisstjórn og Flateyri

Jæja, þá er það ljóst Samfylking og Sjálfstæðisflokkur ætla að stjórna landinu saman næstu fjögur árin í það minnsta.  Mér líst í sjálfu sér ágætlega á þessa stjórn og ætla að dæma hana af verkum sínum.  Athyglisvert er þó hversu fáar sjálfstæðiskonur eru hæfar til að gegna ráðherraembætti. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi nýja stjórn mun ómaka sig vestur á firði til kjósenda á Flateyri. 

Hvað á að gera á Flateyri?  Einhvern veginn sýnist mér að margir líti svo á að þetta sé ekki mál allra Íslendinga heldur sé þetta einkamál Kambs og þeirra sem þar vinna.  Sumir hafa sagt að þetta séu hvort sem er mest útlendingar, þetta fólk þarna á Flateyri geti bara flutt eitthvað annað og fengið sér vinnu.  Staðreyndin er sú að það skiptir engu máli hvaðan þeir eru sem misstu vinnuna, þeir eru allir Flateyringar, þeir eiga sín hús, börnin í skóla, skuldirnar í bankanum alveg eins og við hin.  Fyrst við Íslendingar vorum svo miklir þorskar að leyfa framsal kvóta veðum við að taka afleiðingunum.  Þar verða stjórnvöld að koma að málum. 

Ég vil samt gerast svo djörf að afþakka sendinefnd með brosandi ráðuneytisköllum. Köllum með milljónabréf í vasanum. Milljónabréf sem við nánari sundurliðun sýnir einungis það sem löngu var búið að ákveða að gera. 


Miðbæjarsamtök Ísafjarðar

Stofnfundur Miðbæjarsamtaka Ísafjarðar verður haldinn á Hótel Ísafirði 23. maí klukkan 12:00.   Hlutverk félagsins er að efla miðbæjarstarfsemi með hag verslana, þjónustufyrirtækja og íbúa að leiðarljósi, stuðla að fögru, snyrtilegu og öruggu umhverfi á eyrinni á Ísafirði.   Á fundinum verður kosin stjórn samtakanna og vill undirbúningsnefnd hvetja forsvarsfólk verslana og þjónustufyrirtækja til að mæta og gerast stofnfélagar.  Einnig er hægt að gerast stofnfélagi með því að senda tölvupóst á netfangið midbaer@snerpa.is   

 

Fyrir hönd undirbúningsnefndar,

 

Gísli Úlfarsson

Matthildur Helgadóttir

Erlingur Tryggvason

  

Fósturlandsins Freyja í latex að selja egg.

Hvernig væri að ganga alla leið hérna í Norðvestur kjördæminu og endurskoða þessa kvennadaga sem verða hvort sem er ekki í notkun næstu fjögur árin. 

8. mars gætum við að haldið búrkudaginn.  Þá myndum við  konur í kjördæminu klæðast búrkum, ganga um í litlum siðsamlegum kvennahópum og ávörpuðum karla ekki að fyrra bragði.

17. júní gætum við jarðað fjallkonuna og blessað minningu hennar.  Ekki væri úr vegi að frumsýna fjallkarlinn við sama tækifæri.  Hann gæti tætt inn á sviðið á sínum 4WD á 42" túttum.  Ég sé fyrir mér tenór eða jafnvel hetjugítarleikara.

19. júní gætum við allar skellt okkur í klámgallann.  Líka þessar með árhringina og hrukkurnar.  Fósturlandsins Freyja gegni í hús í latex að selja egg til styrktar karlakórnum.

24. október gætum við gefið öllum körlum frí.  Unnið fram eftir til að klára störfin þeirra þá myndum við kannski skilja hvað það er erfitt að vera karl.

 

 


Skemmtiferðaskipi rænt á Ísafirði

Mér er stórlega misboðið þessi staða 9 - 0  fyrir körlum í norðvestur kjördæmi og ég hef verið að leggja höfuðið í bleyti um hvað hægt væri að gera í þessu máli.  Að vísu eru flestar mínar hugmyndir það öfgafullar að þær eru líklega ekki framkvæmanlegar og þar að auki að sumu leyti ólöglegar.  En það að hugsa öllum, að mér meðtaldri, þegjandi þörfina er viss hugarfróun.   Ég sagði vinnufélögum mínum í Snerpu, sem allir eru karlkyns, að það væri ekki séns í helvíti að við tækum þessu þegjandi.  Sagðist hafa í hyggju að ræna fyrsta stóra skemmtiferðaskipinu sem kæmi til Ísafjarðar í sumar og með því færum við allar á brott. Ég sá þetta fyrir mér og það hvernig allt myndi lamast hér fyrir vestan, grenjandi krakkar, bílstjóralausir strætóar, lokaðir bankar, engin umönnun á sjúkrahúsinu verslanir og þjónustufyrirtækin lokuð því stjórnendur og starfskonurnar væru farnar. Siglandi út í óvissuna í leitinni að jafnrétti kynjanna.........en mundi svo að þetta er sama aðferðin og ég notaði þegar mér mislíkaði lífið í gamla daga. Þegar ég ráðgerði að strjúka að heiman til að láta pabba og mömmu fá móral yfir því að særa tilfinningar mínar, með því að leyfa mér ekki að ráða.  Ég strauk aldrei þá, en ég hef tvisvar farið í kvennaverkfall.   

Það búa líka konur á Vestfjörðum.

Þið sem tölduð að jafnrétti í stjórnmálum kæmi að sjálfu sér hljótið að hugsa ykkar gang núna.  Sú hraksmánarlega niðurstaða í Norðvestur kjördæmi að engin kona komst á þing hlýtur að vera skilaboð til okkar kvenna á Vestfjörðum og Vesturlandi að við eigum ekkert erindi í stjórn landsins. Eða hvað?  Annað hvort sannar þessi niðurstaða að kerfið okkar er gallað og við náum aldrei jafnrétti með því, eða að konur á Vestfjörðum vilja ekki fara í stjórnmál til að hafa áhrif. Því ekki ætla ég konum hér að vera verr til þess fallnar að starfa í stjónmálum en karlar. Hver sem ástæðan er verður að finna hana og við öll ,kjósendur sem flokksbundnir verðum að  horfast í augu við það að þessi kynjaskekkja leiðréttist ekki að sjálfu sér.  Ég viðurkenni fúslega að þessi niðurstaða gerir mig sótbrjálaða, þó vissulega hafi ég óttast að svona gæti farið.  Hvernig sem við veltum þessu fram og aftur og hversu margar afsakanir sem við tínum til er þessi niðurstaða staðreynd.  Við skulum spyrja okkur hvort við viljum hafa þetta svona.

Ég verð að segja að mér er andskotans sama hvernig á þessu stendur, ég krefst þess hins vegar sem kona á Vestfjörðum að þetta komi aldrei fyrir aftur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband