Færsluflokkur: Bloggar

Herra Matthildur

Það hefur verið að brjótast um í huga mér hugmynd um allnokkurt skeið.  Allt síðan umræðan stóð sem hæst um starfsheiti.  Ég vissi ekki alveg hvað mér fannst um starfsheitin ráðherra og sendiherra.  Einn daginn fannst mér þetta allt í lagi en annann þótti mér það slæmt.  Sumir sögðu að herraparturinn í starfsheitunum væri ekkert endilega karllægur og konur gætu vel unnið sem herrar.  Þetta væri bara heimskra manna tal, eða frekar heimskra kvenna tal.

Ég hef því ákveðið að taka upp titilinn Herra Matthildur Helgadóttir, í það minnsta tímabundið.


Að sofa ekki hjá ókunnugum 4.

Nú er mál að slá botninn í frásögnina af för minni.  Þetta er komið ágætt og mesta furða hvað hægt er að gera sér litríka sögu úr venjulegum athöfnum.  Ég ákvað að taka flugið heim frá Boston ekki þó vegna þess að ég þyrfti lögfræðiaðstoð frá Denny Crane ætlunun var að hitta listasysturnar Holly og Laurel Hughes.  Þær eru listakonur í tvennum skilningi, þessum hefðbundna og einnig eru þær einkar lagnar og leggja mikinn metnað í að gera sér lista.  Á þessa lista skrá þær allt sem þarf að kaupa, allt sem þarf að gera, allar bækur sem þær langar að lesa, allar sýningar, söfn og kannski líka eitthvað sem þær ætla að spekúlera í seinna.  Mér Þótti þetta sniðugt kerfi og skrifaði á minn miða, kaupa mér expressó, kaupa bók og mæta í flug. 

Ég hef á undanförum árum verið að þróa með mér flughræðslu.  Ekki misskilja mig ég er ekkert hrædd um að hrapa eða neitt slíkt.  Ég er hrædd um að fá óætan mat og að sessunautur minn hafi vonda nærveru. Nærveru sem væri það stór að hún flæddi yfir í mitt svæði og illa lyktandi eða jafnvel drukkin.  Hver kannast ekki við að hafa lent í vondum mat og vondri nærveru í flugvélum.  Er það ekki annars flugfélagið okkar grúbb eitthvað, sem auglýsir að það sé ekki áfangastaðurinn heldur ferðin sjálf sem sé málið.  Þegar ég nálgaðist sætið mitt, sæti þrettán í röð þrettán var ég komin með hjartslátt, horfði vonaraugum á smávöxnu farþegana. En þetta fór allt vel að lokum, sessunautur minn hafði að vísu stóra nærveru en var viðkunnanlegur. þetta hefði geta farið miklu verr Í heimferðinni var mér boðin rúllukássa.  Mannasiðum mínum hafði greinilega hrakað frá því í síðustu ferð því ég rétt nartaði og potaði í rúlluna, sem minnti á afkvæmi lasagna og vorrúllu.  Ég hafði líka lært af reynslunni og keypt mér súkkulaðihúðaðar kaffibaunir, rúsínur og annað nasl.  

En ég svaf ekki, enda finnst mér alveg vonlaust að reyna að sofa í flugvélum.  Ástæðurnar eru nokkrar. Það er sífellt verið að bjóða fólki mat, drykk eða að kaupa varning. Að sofa sitjandi er óþægilegt, og af einhverjum ástæðum er flugfarþegar gjarnan fullir af koffíni og sípissandi. Síðast en ekki síst þá finnst mér og ég veit að svo er um fleiri óþægilegt að sofa hjá ókunnugum karlmönnum

 

 


Hvað er verra en að festast í lyftu 3.

Heldur nú áfram frásögnin.  Ég komst að því í þessari ferð að við erum alltaf að nota þá reynslu sem við öflum okkur. Stundum raunar annan hátt en okkur hefði getað órað fyrir. 

Nokkrir íslendingana sem tóku þátt í ráðstefnunni lentu í frekar leiðinlegri aðstöðu.  Aðstöðu þar sem við gátum hvorki haft mikil áhrif né völd.  Ég hef kallað þessa uppákomu falið vald, það skiptir alltaf miklu að velja atburðum gott nafn og við vorum jú öll valdamikil Við vorum sem sagt átta saman í lyftu sem stoppaði á milli hæða. Þetta þýddi vitaskuld að við sátum föst í lyftunni í 20 til 30 mínútur, og ég er að tala um lengri gerðina af mínútum. Eftir á að hyggja var fróðlegt að spá í viðbrögð okkar.  Við hringdum jú bjöllunni, nokkrum sinnum til öryggis, og spjölluðum við starfsmann hótelsins í kallkerfinu, kröfðumst þess að hann slökkti umsvifalaust á lyftutónlistinni, þessari kæruleysislegu, gerilsneyddu niðursuðudósatónlist, sem demt er yfir varnarlaust fólk í símkerfum og lyftum. Starfsmaðurinn sagði okkur allan tímann að það væru einungis 10 mínútur þangað til okkur yrði bjargað. Það var á endanum satt og áður en yfir lauk tókst okkur auðvitað að gera hann svolítið pirraðan.  Okkur fannst miklu skárra að hann yrði reiður, frjáls maðurinn, en að við færum að skeyta skapi okkar hvert á öðru.  Ég held ég geti fullyrt að engu okkar þótti þetta skemmtileg dvöl en það var greinilegt að sumir héldu ró sinni betur en aðrir þó ekkert okkar hafi misst sig. 

Eftir að við vorum laus úr klefanum vorum við öll fegin en sumir urðu reiðir, fannst þetta ekki vera okkur samboðið að lenda í slíku. þarna nýttist mér 43 ára reynsla af íslensku verðri og færð. Að komast ekki alltaf þangað sem ég ætla mér á þeim tíma sem mér þóknast.  Og þó mig langi ekki að verða föst í lyftu aftur, þá verð ég að segja alveg eins og er að það er miklu verra að vera í flugvél sem snýr við í flugi frá Reykjavík til Ísafjarðar sveimar í hring í Djúpinu og fer rakleitt aftur suður.  Þá er nú skárra að festast í lyftu.


Hvað er verið að gera fyrir karlmenn á Íslandi? 2.

Í gær hóf ég frásögn af ferðum mínum og því sem mér þótti markvert, í dag held ég henni áfram.  Vitanlega sleppi ég því úr sem ykkur varðar ekkert um, enda vil ég halda í heiðri þeirri stefnu að verða ekki persónulegi bloggarinn.  Væri ég slík gæti ég farið að skrifa frásögn um háska í háloftunum. Sögukorn um það hvernig konu með iðrakvef, sem mænir milli vonar og ótta á biðröðina við prívatið í flugvélinni líður. En ég skrifa ekkert svoleiðis. 

Eftir að ég hafði lokið máli mínu, sýnt vel valda glefsu úr heimildarmyndinni fékk fólkið í salnum augnablik til að jafna sig ná, þó ekki væri nema að einhverju leyti, aftur sínu alvarlega yfirbragði. Þá var opnað á fyrirspurnir, þær voru allar hver annarri gáfulegri, ef ég man rétt. Og svörin ekki síðri.  Mér þótti þó skemmtilegast þegar ein kona úr salnum spurði hvað yfirvöld á Íslandi væru að gera fyrir kalmenn.  Eftir ræður okkar um grósku, kraft og gleði hjá íslenskum konum hélt hún greinilega að íslenskir karlmenn væru afskiptir, valdalausir, varnarlausir og hræddir.  Ég veit ekki hvað yfirvöld eru að gera, fyrir utan að gera þá lagalega jafnréttháa okkur konum, en ég veit að við leyfðum þeim að taka þátt í Óbeislaðri fegurð. 

Eftir handabönd, þakkir og þreifingar um að endurtaka leikinn á öðrum stað og tíma, ákváðum við að skreppa á næsta matsölustað og fá okkur latte eða rauðvín.  þar sátu í það minnsta fjórtán femínistar í miklu stuði og hlátrasköllin í okkur yfirgnæfðu alveg ítölsku fótboltaáhugamennina, sem þó æptu allt hvað af tók þegar það átti við í leiknum. Þeir voru ekkert fúlir, kannski bara fegnir að vera ekki þeir hávaðasömustu, í þetta eina sinn. 

Eftir dvölina á þeim ítalska tvístraðist hópurinn. Sumar fóru aftur í SÞ, aðrar að versla eða heim á hótel.  Það var í mér einhver órói og ég ákvað að taka mér rösklega göngu, ein með sjálfri mér.  Þegar ég hafið arkað á góðum smalahraða í fast að hálftíma uppgötvaði ég að síminn minn var týndur.  Þetta leit ekki vel út, enda allt mitt tengslanet í símanum.  Einu númerin sem ég man sjálf eru heima hjá mömmu, heima hjá mér og einn einn tveir.  það er að vísu hægt að komast langt á því en það væri ekki lygi að segja að ég hafi hlaupið til baka á þann ítalska.  Auðvitað voru þessir ljúflingar með símann og sögðust vita hvað allir mínir vinir heita.  Sem betur fer þekktu þeir ekki Uglu símahrekki og höfðu því hvorki skipt út númerum eða sent einhverjum óviðeigandi smáskilaboð.

Enn hef ég ekki alveg lokið máli mínu og mun því setjast aftur við skriftir síðar

 

 

 


Það var hlegið að mér í New York 1.

Að fá hugmynd er auðvelt, að ræða hana og útfæra er skemmtilegt en að koma henni í framkvæmd krefst áræðis og krafts.  Einhvernvegin svona nema vitaskuld á útlenskuhóf ég mál mitt í höfuðstöðvum Sameinuðu Þjóðanna í New York í síðustu viku.  Mér var allt svo boðið þangað í tilefni af 52. þingi kvennanefndar sameinuðu þjóðanna til að segja frá háðsádeilunni Óbeisluð Fegurð sem nokkrir galgopar á Ísafirði stóðu fyrir á síðasta ári.  Mér var bæði ljúft og skylt að mæta til að breiða út boðskapinn, nú og auðvitað til að trana mér smávegis enda í félagi athyglissjúkra Íslendina.

Það er margt sem landsbyggðarkonu eins og mér dettur í hug þegar hún ferðast um ókunnar slóðir og framandlegar samkomur.  Kannski er ekki alveg búið að drepa í mér sjálfstæða og gagnrýna hugsun þó tíðarandinn hér heim á íslandi sýni fólki sem stoppar og spyr af hverjulitla þolinmæði og enn minni virðingu. Það er önnur saga og líklega efni í djúpþenkjandi færslu.  Ég mun hér á eftir gera grein fyrir einhverju af því sem mér þótti markvert í þessari ferð.

Ég flaug til New York með Flugleiðum grúbb eins og lög gera ráð fyrir.  Það var  tíðindalaust nema mér fannst raspkökkurinn sem í boði var á leiðinni út varla til manneldis.  Mér varð hugsað til hænsnanna hennar mömmu í sveitinni heima. Ætli þær hefðu haft lyst á þessu.  Hundurinn hefði ekki étið þetta hvað þá kötturinn minn.  En ég kláraði úr dollunni, enda alin upp við að ljúka af disknum. þó færa megi rök fyrir því, að það að ljúka við mat sem mann lagar ekki í sé ávísun á offitu. Við eigum frá náttúrunnar hendi að kunna okkur magamál. Með í farteskinu var ræðan og heimildarmyndin.  Ég var við öllu búin, með eintök bæði í ferðatöskunni og í handfarangri, auk þess sem ég gekk með lítinn minniskubb í kápuvasanum. Þó ég geti verið utan við mig stundum, þá var harla ólíklegt að ég týndi öllu í senn, farangri, handfarangri og rauðu kápunni. 

Að halda ræðu á svona viðburði er í senn mjög einfalt og líka flókið.  Mér var uppálagt að fá sérstakt dvalarleyfi af diplómatískum ástæðum, auk þess sem ég þyrfti til þess gerðan passa, svo ég kæmist frjáls ferða minna um hús SÞ.  Þetta kallaði á pappírsvinnu og myndatökur þar sem ég varð að gæta þess sérstaklega að sýna ekki tennurnar hvað þá brosa.  Það er nú hægara sagt en gert í mínu tilfelli. Ég varð vægast sagt grimmileg á svip, grafalvarleg og með saman klemmdar varir.  Hitt var einfaldara því í grunninn er ekki svo mikill munur á að koma fram í félagsheimilinu í Hnífsdal og Dag Hammerskjold salnum.  Mér leið í það minnsta vel, svona rétt eins og þetta væri miðlungs þorrablót.  Ég vissi hvað ég var að fara að tala um og þóttist vera þarna meðal jafningja.  Auðvitað var ég með tölvuna, DVD diskinn, minniskubbinn, rauðu kápuna og ræðuna.

Þið sem enn eruð að lesa megið vita að þó ég væri svellköld fékk ég tvö minnimáttarköst. það er þegar litla konan á öxlinni hvíslar einhverju minnkandi að þérAnnað kastið fékk ég þegar ég sá fram á að þurfa að skera niður ræðuna mína um þriðjung enda var mér bara úthlutað 20 mínútum.  Hitt kastið fékk ég rétt áður en ég átti að mæta og sat með nokkrum öflugum femínistum í kaffiteríu SÞ og þeirri hugsun sló niður í kollin á mér, að þetta yrði ekki fyndið.  Ég yrði fræg fyrir að koma alla þessa leið og halda þurra og leiðinlega ræðu og það í sjálfum höfuðstöðvum SÞ í New York.  Ég hafði sett markið hátt og vildi vera með hóflegt uppistand að hætti Ellenar De Generes. Ástæðan fyrir því að mér varð hugsað til Ellenar var sú að yfirskrift okkar fundar var Growth, power and fun.  Ég var síðust og fékk á slá á létta strengi, á undan mér höfðu talað miklir ræðuskörungar.  Þær Ásta R. Jóhannesdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðrún Jónsdóttur og Margrét Steinarsdóttir héldu þrumu ræður voru þær að hita salinn upp fyrir mig? Engin pressa.

Áhyggjur mínar voru óþarfar. Ellen hefði þó líklega toppað mig en ég verð í það minnsta ekki fræg fyrir þurrlegustu ræðu sem nokkurn tíman hefur verið flutt í þessu húsi. Markverðum atburðum var þó ekki lokið og mun ég á næstu dögum leiða ykkur í allan sannleikan. Eða á ég að segja sannleikann eins og ég man hann um það sem getur gerst í New York.

.

.

 


Að hafa stjórn á sínum eigin heila

Stundum þegar mikið er að gera og ég hef alls ekki tíma til að láta hugann reika, hvað þá festa hugsanir á blogg, er það einmitt það eina sem ég fæ heilann til að gera.  Þó það eigi að heita svo að við stjórnum okkur sjálf og höfum fullt vald yfir því sem við gerum og hugsum, verður að segjast alveg eins og er að  það er  flóknara en  fólk gæti haldið.

Ég er til dæmis frekar upptekin þessa dagana enda á förum til New York og þarf að búa svo um hnúta á mínum vinnustað að strákarnir haldi ekki að ég sé þessi ómissandi.  Að ráði kunningjakonu minnar setti ég setti fingurinn í vatnsglas og  þegar ég tók hann upp úr sá ég að holan eftir fingurinn hvarf samstundis. þetta á að segja mér að fyrirtækið verði ekki horfið þó ég skreppi frá.  Sama kunningjakona laumaði því líka að mér, þegar hún sá efasemdasvipinn, að fólk sem ekki næði þessu væri sjúklega stjórnsamt.  Það sem ég vil alls ekki kannast við að vera stjórnsöm, hvað þá sjúklega stjórnsöm, náði ég samhenginu strax.  Ætla því með hjálp tækninnar að stjórna fyrirtækinu með hæfilegri blöndu af fjarlægðarstjórnun og  fram í tímann stjórnun.  Þeir munu varla taka eftir því að ég verð ekki á staðnum.

Í stað þess að klára verkefnalistann hef ég eytt tíma mínum í þessa bloggfærslu, kvefast og láta hugann reika.  Þessi færsla er því fórn mín til ósjálfráða hluta heilans sem vonandi hefur fengið nóg af slugsi og leyfir mér að fara að vinna strax og ég hef lokið þessari færslu með punkti.


Hún er á klósettinu

Að minnsta kosti ein manneskja hefur skammað mig einu sinni fyrir að vera ekki persónulegi bloggarinn og til að gera henni til geðs eins af því að sagan er góð, langar mig að segja ykkur frá unglingavandamálinu sem ég lenti í áðan.

Það hringdi ókunnugur maður heim til mín áðan og spurði kurteislega hvor ég væri viðlátin.  Unglingurinn sem svarað hafði í símann sagði að bragði nei, hún er á klósettinu Það var svo sem engin lygi, enda þurfa konur líka á klósett þó það fari ekki hátt, hafði hann varla sleppt orðinu þegar ég kom inn í eldhúsið og hann hélt áfram hún er búin og rétti mér símtólið.  Ég, sem ekki hafði heyrt neitt af því sem fram fór tók við símanum og átti þetta undarlega símtal við mann sem reyndi að vera alvarlegur en gat varla rætt við mig vegna hláturskasts. Okkur tókst þó að ljúka erindinu. Eftir að ég hafði lagt á og hafði orð á því hvað maðurinn var kátur, þrátt fyrir algjörlega húmorssnautt erindið, útskýrðu unglingurinn og faðir hans af hverju manninum var svona skemmt.  Þeim var líka skemmt.

 


Dýrslegar hvatir

Það er með ólíkindum hvað fólk getur verið að spekúlera.  Ég frétti nýlega af konu sem vildi að hún væri skógarbjörn.  Ástæðan væri einkum sú að skógarbirnir leggjast í dvala á veturna.  þetta fékk mig vitaskuld til að hugsa um mitt innra dýr, ef svo má að orði komast.

Ég get alveg verið sammála þessari konu, því innst inni öfunda ég þessa brúnu bangsa af því að sofa af sér veturinn.  Eins hefur mér alltaf þótt það öfundsverður eiginleiki bangsa að geta hrætt alla viðstadda með því einu að standa upp og öskra.  Þó ég hafi vissulega bæði staðið og öskrað hefur mér sjaldnast tekist að valda skelfingu, það er varla að nokkrum hafi brugðið. 

Kötturinn fer sínar eigin leiðir og það geri ég líka og finnst rétt eins og kisu að kona eigi ekki alltaf að koma þó einhver kalli.  Eitt gerir kisa þó sem ég hef ekki enn tileinkað mér en mætti kannski skoða betur, en kettir hafa vit á því að forðast átök og virðast skilja að stríð valda alltaf báðum aðilum tjóni burt séð frá því hvor vinnur.  Kisa er líka mikil veiðikló og það hélt ég að ég væri líka. Það var ekki laust við drápseðlið hefði rekið mig áfram, þegar ég útskrifaðist úr byssukonuskóla ríkisins og keypti mér byssu fyrir nokkrum árum.  Ég og mín byssa höfum þó ekki drepið neitt ennþá. 

Ekki er hægt að fjalla um dýr án þess að koma blessuð sauðkindin í hug.  Þessi bragðgóða og vinalega skeppna sem sumir hafa talið vera heimska en er í raun klókari en margur smalinn.  Þó kjöt og fiskur sé prýðis matur þá finnst mér eins og þeim grænmetið gott og ég og rollurnar eigum það sameiginlegt að koma feitar af fjalli á haustin. 

Ég er ekki miklu nær eftir þessa vangaveltur um mitt innra dýr en ef það væru til drekar og ef ég væri ekki manneskja þá væri eflaust ég dreki.

 


Það sem hægt er að lenda í

Kunningi minn lendir oft í slæmum málum og satt að segja er hann alltaf jafn hissa á viðbrögðunum.  Hann hefur til dæmis lent í því að aka of hratt, vera tekinn af löggunni og þurft að axla sína ábyrgð með því að greiða sekt og fá punkta í svörtu bókina hjá guði. Það fannst honum óréttlátt því þetta var óvart og löggunni var, að hans sögn, illa við hann. Þetta er vitaskuld ekki það versta sem hann hefur lent í að gera en þessi maður, sem er auðvitað virðulegur gaur og allt það, hefur bæði svikið og logið.  Stundum kemst upp um hann og þá lendir hann í því þurfa að svara fyrir sig.  Stundum lendir hann í því að ljúga sig út úr hlutunum.  Málsvörn hans er einföld og áhrifarík.  Hann setur upp skömmustulega svipinn og segir þetta vera það allra versta sem hann hafi lent í.  Hann segist sjá eftir því að hafa logið og hann segist ætla inn í herbergi og sitja þar þangað til hann hafi skammast sín nóg.  Síðan ætli hann að koma út úr herberginu og ávinna sér traust og virðingu.

 

Hann lendir aftur á móti aldrei í því að skilja að hann hafi brotið af sér og við lendum líklega ekki í því að sjá hann axla ábyrgð.


Gleyp´t ekki flugu

Sumum finnst gaman að þrasa og rífast á meðan aðrir forðast að hækka róminn og láta frekar satt kyrrt liggja en lenda í deilum.  Ég skal viðurkenna að ég fylli fyrri flokkinn. Mér finnst gaman að munnhöggvast við fólk, sérstaklega verðuga andstæðinga.  Þessa sem eru fljótir til svars og gefa mér ekkert eftir.  Rifrildi er samt ekki bara rifrildi og auðvitað verður að fylgja ákveðnum reglum.

Þegar ég tala um reglur á ég ekki við keppnisreglur eins og í Morfís og þess háttar félagskap sem keppir í orðaskaki.  Ég á heldur ekki við rökfræði sem slíka enda eru þeir snjöllustu í rökfræði ekki endilega þeir bestu í þrasi og deilum.  Ég komst að því á námsárunum að þrátt fyrir áralanga þjálfun í að rífa kjaft og svara fyrir mig, þurfti ég að læra rökfræðina til að ná sómasamlegu prófi.

Það er nú samt svo að því betri sem ég verð í rifrildum því minna nota ég tæknina.  Það á auðvitað við á fleiri sviðum, til dæmis er ég miklu betri bílstjóri núna en fyrir tuttugu árum en í dag keyri ég bæði sjaldnar og hægar.  Það er kannski einkum það sem við þurfum að læra að skilja hvenær og hvenær ekki.  Eitt af því sem gerir okkur góð í rifrildi eru góðar setningar sem hægt er að skella á andstæðinginn á hárréttu augnabliki til að slá hann eða hana út af laginu.  Mín uppáhalds setning er Gleyp´t ekki flugu.  Mátulega ósvífið háð án þess að vera of dónalegt.  Dónaskapur er vandmeðfarin í þrasi og á helst ekki að nota því dónaskapur getur auðveldlega eyðilagt gott rifrildi.  Húmor og þekking á veikleikum andstæðingsins eða innsæi er farsælast.

Kannski er það áhyggjuefni hvað ég er orðin slök í þrasinu, hugsa sem svo að ég nenni ekki að æsa mig yfir þessum smámunum.  Að fólk hafi rétt til að vaða í villu og vera ósammála mér. Vitandi vel að fyrir nokkrum árum hefði ég ekki hikað við að taka slaginn.  Finna hvernig veiðihugurinn tók yfir, leika sér að bráðinni, missa hana, ná aftur og svo auðvitað rústa henni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband