Færsluflokkur: Bloggar

Alþjóðegir þankar um morðingja og olíuhreinsunarstöð

Tvö mál hafa verið mér ofarlega í huga undanfarið.  Hugsanleg bygging olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum og dvöl erlendra glæpamanna á Íslandi.  Í fljótu bragði eiga þessi mál ekki mikið sameiginlegt, en ef betur er að gáð tengist umræðan.  Ég hef komist að því að afstaða mín í þessum málum er að hluta til byggð á eiginhagsmunum og skorti á alþjóðlegum þankagangi.

Nú hef ég ekki gert endanlega upp hug minn varðandi þessa hugsanlegu olíuhreinsunarstöð en viðurkenni fúslega að mér líst ekkert allt of vel á hugmyndina.  Ég hef áhyggjur af einhæfu atvinnulífi hér vestra og mengun, fyrir utan að ég vil vita meira um hver, hvar og hvernig.  Hvað varðar dvöl erlendra glæpamanna hér á landi, hallast ég að því að við ættum að halda þeim frá með öllum ráðum. Íslensk lögregla er víst ekki nægilega vond við þessa útlensku glæpamenn, og það ku laða að þá hingað. Pólska lögreglan er sögð hafa boðið íslenskum starfsbræðrum sínum í starfskynningu, til að kenna þeim að vera góðir í því að vera slæmir við vonda glæpamenn.  Ég er orðin alveg ringluð í þessari umræðu, ég hélt allaf að það væri gott þegar löggan er sanngjörn og kemur fram við fólk af virðingu.

Stundum heyri ég, þá sem fyrir alla muni vilja olíuhreinsunarstöð, segja að olíuna verði að hreinsa einhverstaðar og það sé betra að hreinsa hana hér á Vestfjörðum en í vanþróaðri löndum. Íslensk stjórnvöld munu frekar passa upp á að farið sé eftir ýtrustu reglum og að við eigum ekki að hugsa bara um okkar hag og neita að nota okkar hreina land undir svona iðnað.  Það sé augljóslega alþjóðlega hagkvæmt að hreinsa olíu með hreinni orku, í landi sem fer eftir reglum. 

Ef við snúum okkur aftur að umræðunni um þessa glæpamenn sem koma hingað til lands, einkum vegna þess að við erum svo góð við þá.  Má þá ekki hugsa sér að við ættum ekki að vera svona miklir eiginhagsmunaseggir að neita að taka við þeim.  Einhverstaðar verða vondir að vera.  Ef við gefum okkur að það sé alþjólegur vilji og hagur í því að glæpamenn láti af hegðun sinni, og verði að löghlýðnum borgurum, er ekki líklegra að þeir betrist hjá okkur en í þeim löndum sem komið er illa fram við þá. 

Það er ekki einfalt að temja sér alþjóðlegan hugsun.

 


Hóprunk á Ólympíuleikana

Áhugahópur innan íþróttahreyfingarinnar hefur ákveðið að stofna nýtt íþróttafélag.  Félag þetta mun bera nafnið Hóprunk.  Keppt verður í fjöldafullnægingum og fjöldaörvun.  Hóprunkarar vinna nú að því að fá að skrá félagið í ÍSÍ til að fá lottópeninga og almenna viðurkenningu.

Þó Hóprunk sé langt því frá að vera allra, telja aðstandendur félagsins að það uppfylli  kröfur sem gerðar eru íþróttafélags.  Bæði kynin geta tekið þátt og þetta er ný grein sem enginn keppir í og Íslendingar gætu því orðið heimsmeistarar.  

Aðstandendur hyggjast jafnvel stofna kvennadeild sem mun samkvæmt gamalli hefð innan íþróttahreyfingarinnar fá minni pening og athygli en karladeildin. 

 

Hr. Matthildur


mbl.is Harðir á strippinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fóru þær aldrei suður? 4.

Á dögunum sagði ég ykkur frá rauðum máfastjórnendum, þessum sem fljúga inn, skíta og fljúga aftur út, og þó ég vilji helst ekki viðurkenna það hef ég eflaust notað þessa tækni í það minnsta einu sinni eða jafnvel tvisvar.  Ég ætla ekki að fara nánar út í það en það er svo skemmtilegt hvað tilveran hefur mikinn húmor, sérstaklega þegar okkur sjálf skortir húmor.  Eins og ég játaði um daginn þótti mér þetta litakerfi hennar Lísbetar í Lectura asnalegt eftir að hún gerði grín að rauðum innri konum.  Það var því með hálfum hug að ég setti miða með nafninu mínu í þar til gerðan kassa og úr honum átti einmitt að draga þá heppnu konu sem fengi nákvæma persónugreiningu í lit væntanlega frá Lísbet.  Auðvitað vann ég, reglan um að sá sem vill minnst, þarf mest og vinur þess vegna og mun ég  því væntanlega finna sjálfa mig innan tíðar.

Allt tekur enda og ferðin okkar líka. Öllu námi var lokið í bili og málfreyjan, nornin, hjúkkan og húsfreyjan lögðu á brattan upp landið, alla leið á topp tilverunnar, heim til Ísafjarðar.  Við vorum lúnar en sáttar, því meira sem hafði farið úrskeiðis, því meira höfðum við hlegið á endanum í það minnsta.   Keyptum bensín á uppsettu verði, fylltum nammihólfin í bílnum og hugsuðum heim.  Það er sterkt þetta afl sem dregur fólk heim.  Tilhugsunin um fjölskylduna, rúmið sitt og öryggið veitir fólki kraft. það er líkast til sami krafturinn sem fær dagfarsprútt og varfærið fólk til að æða upp á ófærar heiðar eða sýna starfsmönnum flugfélaga dónaskap þegar flugi er aflýst.  Ekki að við fjórar þekkjum það

Það eru lítil takmörk fyrir því hvað fjögurra kenna hópur getur orðið gáfaður og djúpur á langferð.  Okkar hugmyndir um atvinnulíf þjónustustörf, lífið fyrir vestan eru allt aðrar en þær sem við lesum um daglega.  Við lestur fjölmiðla á Íslandi gæti fólk freistast til þess að halda að heima hjá okkur gangi fólk um grátandi, atvinnulaust í verðlausum eignum án framtíðarsýnar.  Engin okkar kannast við það.  Vissulega má þó margt betur fara í okkar samfélagi rétt eins og í öllum öðrum.

Okkur sóttist ferðiðn vel.  Málfreyjan fékk að keyra yfir Steingrímsfjarðarheiðina með því að hóta að annars myndi hún skipta sér óeðlilega mikið af akstrinum á mjög leiðinlegan hátt.  Húsfreyjan sat í húsbóndasætinu, þessu við hliðina á bílstjóranum.  Á leiðinni upp heiðina var svo blint að hún ók næstum ofan í gil.  Þetta gerðist þó hún væri komin með tvenn sólgleraugu utan yfir gleraugun og að húsfreyjan lét vita af öllum stikum sem hún sá, með listrænum handahreyfingum og óhljóðum.  Það þótti okkur hinum óhemju skemmtilegt, jafnvel enn skemmtilegra en þegar hún talaði sem dauðadrukkna konan í hálfan fjörð í suðurferðinni.  Hvar var nú fylgdarþjónusta vegagerðarinnar?

Þegar við vorum komnar í Ísafjörðinn hittum við konunginn, nei ég er hvorki að tala um bæjarstjórann né Bubba, ég er að tala um örninn.  Hann flaug svo nálægt bílnum, þessi risastóri fugl, að við horfðumst í augu við hann.  Nornin var þarna í fyrsta skipti að hitta örn og við hinar höfðum aldrei séð svona stóran, fullorðin fugl í þetta miklu návígi.  Það tók okkur tvo firði að ræða þessa upplifun.

Að lokum komumst við allar heim í Arnardalinn, Ölduna, Fjallið og Eyrina. Eitt skal ég segja ykkur,  með þessum konum væri ég til í að ferðast til heimsenda.  Norninni, hjúkkunni og húsfreyjunni færi ég mínar bestu kveðjur og þakkir fyrir samfylgdina.


Gunnar Örn Gunnarsson, myndin og bílstjórinn.

Þegar ég var tvítug vissi ég hvorki hvað ég vildi vera, né hvað ég vildi ekki vera.  Þá daga var lífið endalausar bíóferðir og djamm og þá vann ég sem bílstjóri.  Ég vann við að keyra út kjöti,  unnum kjötvörum og þess háttar í verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Þetta var töff vinna enda átti ég svöl sólgleraugu og reykti tvo pakka á dag.

Það var svo einn daginn, sem oftar, að ég átti að fara með sendingu í Pítuna Skipholti. Við hliðina var Gallerí sem ég hafði svo sem tekið eftir, en þó ekki.  Þennan dag tók ég eftir. Það var komin ný mynd. Mynd sem heillaði mig og heillar mig enn, þó hún sé í huga mér farin að dofna.  Í minningunni var hún risastór, ótrúlega fallegur bakgrunnur og á miðri myndinni var stóll eða kona í stól, gott ef þessi kona var ekki fótalaus.  Ég man það ekki alveg en ég man þessa tilfinningu fyrir myndinni og ég man að ég var gjörsamlega gagntekin. Ég tók oft á mig krók til að skoða hana.  Sýndi vinum mínum sem voru, ef ég man rétt, ekki nálægt því eins heillaðir og ég.  Við vorum tvítug.

Að lokum hafði ég mig í að fara inn og skoða drauminn í nálægð.  Ég ímyndaði mér að ég myndi kaupa hana og eiga alla æfi.  Ég sem ekki átti neitt, ekki bíl, og hafði ekki einu sinni ráð á því að leigja mér íbúð nema í félagi við nokkra vini, vildi trúa því að ég gæti keypt þessa mynd.  Vonir mínar urðu að engu, myndin kostaði nokkur mánaðarlaun og ég hafði mig ekki í að taka lán. 

Öll þessi ár hef ég séð eftir því að hafa ekki keypt þessa mynd og stundum hefur hvarflað að mér að hafa samband við málarann í þeirri veiku von að hann vissi hver ætti myndina.  Þessi málari, Gunnar Örn Gunnarsson var borin til grafar í dag og langar mig að votta honum virðingu mína og þakka fyrir þessa mynd sem hefur fylgt mér þó ég hafi ekki enn eignast hana.


Hvað getum við lært um stjórn af mávum? 3.

Þá er mál að ljúka þessari ferðasögu.  Eftir allt of stuttan svefn urðum við að fara á fætur.  Við vorum fúlar, við vorum úrillar og við vorum þreyttar. Í það minnsta málfreyjan og nornin, en þær höfðu legið vakandi fram undir morgun og hlustað á gleði og sorgir ólátabelgjanna. Lágu báðar þegjandi í rúmunum og þorðu ekki að segja orð til að vekja ekki hina ef svo vildi til að hún gæti sofið. Hjúkkan og húsfreyjan sváfu þetta að mestu af sér.  Þó við fengjum örlitla útrás á hótelstjóranum í morgunmatnum var málfreyjan enn snúin og lagaðist ekki að ráði fyrr en hún fékk að fara í smá ömmuleik við brautargengisbarnið.  Þetta fyrirmyndar og fríðleiksbarn kom okkur samstundis í betra skap.

Morguntíminn fór í skemmtilegan fyrirlestur um starfsmanamál frá heillandi konu.  Í grundvallaratriðum minnti hún okkur á að við eigum að vera góð við starfsfólkið okkar um leið og við græðum á vinnuframlagi þess.  Annað hvort sagði hún þetta, eða ég dottaði og fór að dreyma. 

Eitt af því sem ég hef komist að í þessu námi mínu er að landið er fullt af frábærum konum, karlarnir eru ágætir líka en ég vissi það því ég les um þá á hverjum degi í fjölmiðlum. Bæði kennarar og aðrar Brautagengiskonur eru uppfullar af krafti og hugmyndum. Þetta fær konu til að hætta að hafa áhyggjur af íslensku krónunni og Mugabe. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af atvinnumálum eða neinum öðrum málum ef allar þessar konur fá að njóta sín.  Virkjunarsinnar ættu að snúa sér að því að virkja hugvit kvenna og karla auðvitað.

Lokalærdóminn á sunnudeginum drógum við af henni Lísbet.  Hún sýndi okkur hvernig okkar innri kona er á litin.  Þá er ekki verið að tala um hvort við værum brúnkukremsbrúnar, upprunalega svartar eða grábleikar Íslenskar. Hún talaði um gula, rauða, græna og bláa innri konu og hvernig best er að blanda þeim saman í vinnuhópa og verkefni. Málfreyjan og nornin voru rauðar, húsfreyjan gul og hjúkkan var blá eða græn.  Ég hirði ekki um að útskýra þetta nákvæmlega en í stuttu máli eru rauðar stjórnsamar og drífandi, gular skapandi og fjörugar, bláar nákvæmar og grænar góðar.  Þetta var mjög gaman og hún heillaði mig alveg upp úr skónum, allt þangað til hún spurði hvort við vildum vita hvernig stjórnendur rauðar væru, allar sögðu já nema ég sem fann á mér að þetta yrði ekki gott,  Rauðir stjórnendur eru svo kallaðir mávastjórnendur, þeir fljúga inn, skíta og fljúga svo út.  

Ég játa. Missti mig aftur og  tókst ekki að ljúka máli mínu  áður en  blogginu lauk.  Heimferðina fáið þið að lesa um á næstu dögum. En þar ræddum við um allt sem við lærðum og lögðum út af því.  Til dæmis veltum við því fyrir okkur hvort hægt væri að fæðast í röngum lit, rétt eins og fólk fæðist stundum í líkama af röngu kyni.  Það gæti verði kallað að vera skinnvilltur og okkur datt í hug að það gæti verið grunnurinn að vandræðum Michael Jackson.


Viðskiptaskóli á fjöllum fyrir þroskaðar konur 2.

Hefst nú annar kafli í frásögninni af skoðanagjörnu og skemmtilegu konum fjórum, þeim hjúkkunni, norninni, húsfreyjunni og málfreyjunni. Konunum sem lögðu land undir fót til að læra að stunda viðskipti með viðurkenndum aðferðum, og það án þess að svíkja nokkurn mann eða fara á hausinn. 

Eftir allt of stuttan nætursvefn, í það minnsta hjá okkur miðbæjarrottunum, fórum við á sunnlensk fjöll.  Veðrið var silfur.  Ég vissi ekki að það gæti verið svona fallegt veður á suðvesturhorninu  það er sem sagt ekki alltaf rigning Vitaskuld héldum við áfram samræðum í trúnaðartón, en í ferðinni voru stóru málin leyst og litlu málin rædd þangað til þau urðu stór.  Svona stelpuútgáfa af bílaauglýsingum Bubba, minna um takka og meira um tilfinningar.  Ég get náttúrulega ekki sagt ykkur neitt að ráði frá þessum samræðum án þess að brjóta trúnað.  En ég get sagt ykkur að við vorum ljóðrænar og jafnvel harmrænar á stundum.  Setningar eins og ég hef komið áður á þennan stað í draumum mínum eða það var svo illa fyrir henni komið að hún grét galli voru settar fram af innlifun og trúnaðartrausti.  

Löngu áður en við höfðum allar náð að komast að, hvað þá lokið máli okkar máli okkar lýkur hvort sem er aldrei vorum við komnar á áfangastað.  Við vissum þrennt um Nesjavelli áður en við komum þangað.  Nálægð við Þingvallavatn, jarðhiti og hótel eða eitthvað í þá áttina.  Þarna eru gamlar vinnubúðir sem búið er að eiga við og snurfusa umtalsvert.  Einkar viðeigandi að fara í vinnuferð í vinnubúðir eða því trúðum við framan af.  Að vísu voru ekki allir gestirnir þessa hótels í vinnuferð og máttu fyrirlesararnir hjá okkur hafa sig allar við, til að yfirgnæfa árshátíðar og óvissuferðar móralinn, sem myndaðist á göngunum og fyrir utan gluggana.  Gluggarnir voru hafðir opnir, því þegar þrjátíu konur anda inn í litlu herbergi hætta þær að geta hlustað, en góð hlustun er víst eitt af grundvallaratriðunum lærdóms.

Ég er ekki að ljúga neinu þegar ég segi að ég hafi lært að hlusta þessa helgi, ekki það að ég hafi ekki stöku sinnum áður hlustað á aðra. En þessa helgi hlustaði ég á margt og stundum margt í einu.  Ég hlustaði á siguróp þeirra sem unnu í bjórkeppni pulsuvagnsins á Suðurlandi á sama tíma og ég hlustaði á fyrirlestur um lögfræðileg málefni. Mér þótti reglugerðirnar áhugaverðari, þó ópin hafi líklega skilið meira eftir.  Með kvöldverðinum, sem bragðaðist undursamlega vel var boðið upp á vinaslit, sambandsslit og gleðilæti, krydduð með hlaupum og köllum. Guð hvað ég varð miðaldra eitthvað. Þar sem við áttum að byrja daginn snemma fórum við ekki í leikinn hlaupa um gangana Við fórum í leikinn snemma að sofa. Ranglega héldum við að gleðigjafarnir myndu sofna snemma, þar sem tómu bjórdósirnar voru farnar að verða áberandi rétt upp úr hádeginu og mikið stuð var þá þegar komið í mannskapinn.  Ranglega segi ég og vona jafnframt að þau hafi skemmt sér vel. Ég var eiginlega alveg dottin úr stuði og þykir mér leitt ef ólundarsvipurinn á mér hafi skemmt fyrir þeim.  Það var raunar ekki að heyra og um hálf fimm um morguninn örmagnaðist síðasti ólátabelgurinn á okkar gangi.  Þá gátum við gömlurnar sofið eins og hratt og við vildum en ekki eins lengi og við vildum.

Enn hefur það sannast að hægt er að gera sér langa sögu úr litlu máli. Seinna fáið þið að vita hvort við vorum mjög úrillar, hvernig okkar innri kona er á litin og hvern við hittum á heimleiðinni svo eitthvað sé nefnt

 


Það eru takmörk fyrir öllu, líka hversu margt getur farið úrskeiðis í einni ferð. 1.

Fyrir nokkru átti ég erindi á suðvesturhornið. Ég og þrjár ágætar kunningjakonur mínar ætluðum að hressa upp á viðskiptavitið og læra nokkur ný trikk á afskekktum og friðsælum stað í Þingvallasveit þetta með friðsældina reyndist þó málum blandið. Við pökkuðum niður lopavettlingum, húfu og sparikjól, hentumst upp í bíl og ókum af stað sem leið lá frá Ísafirði.  það er rétt að taka fram að við höfðum uppi áform um af fara varlega og aka ekki mikið yfir leyfilegum hámarkshraða.  Þarna voru jú mikilvægar og ómissandi konur á ferð.  Mæður ungra barna og  ómissandi lykilstarfsmenn stofnaðra og óstofnaðra fyrirtækja. Við fórum varlega og nutum fylgdarþjónustu Vegagerðarinnar yfir Steingrímsfjarðarheiði. Þó okkur hafi fundist veðrið ekki mikið verra en á leiðinlegum degi í byggð.  Að vísu töfðumst við nokkuð því við þurftum að bíða eftir áðurnefndum fylgdarsveinum, sem við hittum loks á fjallinu þeir verða seint ásakaðir um hraðaakstur.

Þegar fjórar hressar konur með ríka og óbeislaða tjáningarþörf ferðast saman um langan veg er gaman.  Hávaðasamt og gaman.  Tíminn líður líka svo hratt við slíkar aðstæður og áður en við vissum af vorum við komnar á þjóveg númer eitt.  Stoppuðum á Brú í Hrútfirðitil að reykja, pissa, fylla á nammibarinn og kaupa bensín.  Sniðugt kerfi sem þeir nota í bensínsölunni þarna, þú verður að dæla sjálf, þú verður að kaupa þar til gert kort og einu kortin sem þau áttu voru á 10.000.-   það er búið að leggja niður þjónustulundina.  Ég sem nenni helst ekki að dæla. Að lokum gat með klækjum lokkað góða konu úr afgreiðslunni á dæluna. ég þóttist ekki kunna að dæla.

Þegar við komum til Reykjavíkur helltist yfir mig valfrelsiskvíði, ég átti eitt kvöld í borginni áður en ég færi í óbyggðir en marga vini, kunningja og ættingja. ég ímynda mér að allir hefðu viljað fá mig í kvöld og næturheimsókn Hvar skildi gista og hvern ætti ég að hitta. hefði ég kannski átt að vera búin að þaulskipuleggja kvöldið Niðurstaðan úr gistilottóinu var óvænt og ég kem nánar að því síðar.  Hjúkrunarkonuna settum við úr á bílastæði í nýju hverfi sem ég man ekki í svipinn hvað heitir og hvarf hún fljótlega inn í ókunnan bíl.  Nornin fékk vinalegt knús og síðar leikhús í Árbænum segir ekki meir af þeim í bili.  Þá vorum við tvær eftir, óbeislaða konan í Öldunni og húsfreyjan í Arnardal.  Við ætluðum að gista í íbúð sem vinkona húsfreyjunnar átti, en vinkona þessi var stödd erlendis og var svo væn að lána okkur heimili sitt.  Seint og síðarmeir stóðum við skjálfandi í ískaldri nóttinni að reyna að opna dyrnar.  Það var sama hvað lyklatrikk við reyndum, snúa fyrst í ranga átt, draga lykilinn örlítið út eða blóta hraustlega, ekkert gekk.  Á endanum gáfumst við alveg upp og fórum á gistihús í miðbænum, sem ég frétti seinna að væri aðallega notað fyrir sjortara,  Þar var hlýtt og þar var nokkuð hreint.

Eins og stundum áður varð sagan lengri en bloggið  og ég mun á næstu dögum leyfa ykkur að koma með okkur stöllum í viðskiptaskóla fyrir fullorðnar konur. Eitt get ég þó upplýst strax, við fundum út úr lyklamálinu. Húsfreyjan var með tvo lykla í töskunni annan af íbúð vinkonunnar og hinn af ókunnum og dularfullum stað. Eina lyklatrikkið sem við prufuðum ekki var að leita að réttum lykli í töskunni.


Bensín skrímslið skríður

Þó ég sé nú alltaf hrifin af því þegar fólk stendur upp og ver rétt sinn er ég hugsi yfir þessu bensínupphlaupi ofdekraðra jeppakarla og kerlinga í Reykjavík.  Í fyrstu var þetta skiljanlegt, atvinnubílstjórar vöktu athygli á því hversu erfitt er að reka fyrirtæki þegar bensínið hækkar svona hratt. En svo kom þotuliðið á dýru ofurjeppunum. Stóðu með atvinnubílstjórunum, eða hvað?  Virkar á mig eins og að sjá hóp af gráklæddum atvinnulausum ofurútrásarbankamönnum í kröfugöngu 1. maí. 

Ef þetta fólk hefur ekki lengur efni á að kaupa bensín og olíu á stóru bílana sína, væri þá ekki ráð að fá sér ódýrari og sparneytnari bíla eða jafnvel keyra minna.  Er fólk almennt orðið svo firrt að það sér ekki sparnað sem lausn?  Fyrir tæpu ári síðan tímdi ég ekki lengur að eiga minn jeppa, sem var þó bara svo kallaður slyddujeppi, lausnin var einföld og augljós, það fannst mér í það minnsta, ég seldi jeppann og fékk mér fólksbíl.  Ég sé það núna að ég hefði betur ekið flautandi fram hjá Alþingi og volað í fréttunum.  Skammist ykkar og snáfið aftur inn í bílskúr.

Til að hafa nú allt á hreinu, svo ég fái ekki átölubréf frá Háskólanum, vil ég geta þess að ég stal plötunafni frá honum Dr. Gunna, sem er ekki alvöru Dr. og notaði sem fyrirsögn. 


Kveðja Hr. Matthildar til Femínistafélags Íslands

Þegar femínistafélag Íslands var stofnað fyrir fimm árum áttaði ég mig á því að ég hef alltaf verið femínisti.  Alveg frá því að ég neitaði að syngja jólalagið um hann sem fékk bók og hana sem fékk nál og tvinna.  Á þeim árum var ég auðvitað bara kölluð helvítis bölvuð frekjudolla.  En það er allt breytt og þjóðin hefur þokast í jafnréttisátt. Í dag eru allir femínistar kallaðir helvítis bölvarðar frekjudollur. Og ég er stolt af því að vera ein af þeim.

Í þessi fimm ár Femínistafélags Íslands hefur gengið á ýmsu og nokkuð borði á því að reynt hafi verið að þagga niður í femínistum.  Ýmist með því að hóta okkur eða gera lítið úr okkur. Með litlum árangri sem betur fer. Jafnréttisbaráttan er valdabarátta og barátta gegn ríkjandi viðhorfum.  Það er því mikilvægt að við gleymum því aldrei að við náum ekki árangri nema hreyfa við fólki og að engar breytingar hafa nokkurn tíman orðið án baráttu.  Ég vil hvetja ykkur öll til að halda áfram.  Hvort sem þið skrifið bækur, málið myndir, rífist í fermingarveislum, bloggið, rökræðið á kaffihúsum eða eitthvað allt annað.  Látið ekkert tækifæri ónotað og hlustið ekki á úrtöluraddir.  Innst inni eru flestir okkur sammála.  Þegar öllu er á botninn hvolft hefur kvennabaráttan drepið í stærri stubbum en þeim sem eru að reyna að þagga niður í okkur núna.  Og það er töff að þora að vera femínisti.

Um leið og ég sendi ykkur hamingjuóskir langar mig að deila því með ykkur að framvegis ætla ég að fara fram á að vera kölluð herra.  þessi hugmynd er sprottin upp úr umræðunni um starfsheitin ráðherra og sendiherra.

Bestu kveðjur frá Ísafirði 

Herra Matthildur Helgadóttir femínisti........... og frekjudolla 

 


Ungfrú Jarðsprengja

Er það ekki alveg ótrúlegt hvað fólki dettur í hug.  Við mannfólkið búum til jarðsprengjur og plöntum þeim í frjóan jarðveg til þess eins að limlesta fullorðna og drepa börn.  Gjöfin sem heldur áfram að gefa. 

jarðsprengjur 

Sum fórnarlöm vilja þó ekki láta líta á sig sem fórnarlömb, þær komust af og eru stoltar konurnar í Angola sem taka þátt í fegurðarkeppninni og ádeilunni Ungfrú Jarðsprengja.  The Miss Landmine. Í þessari keppni eru skilaboðin skýr, sönn fegurð býr í þeim sem líður vel og þær standa stoltar þrátt fyrir áföll.  Í þessari keppni eru konur ekki varningur.

misslandmine

Farið inn á heimasíðu keppninnar hér og lesið um keppendurnar og þá ógn sem jarðsprengur eru í Angola. Þetta sannar enn og aftur fyrir okkur hvað fólk getur verið kraftmikið þó aðstæður þeirra séu slæmar. 

http://www.miss-landmine.org/misslandmine_project.html


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband