8.5.2008 | 16:55
Er sjálfsvirðing gamallar konu Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar of dýr?
Samkvæmt fréttum stendur til að loka öldrunardeildinni á Þingeyri í fjórar vikur í sumar í sparnaðarskyni. Það þýðir að fólkið sem býr þarna verður flutt af heimilum sínum á sjúkrahúsið á Ísafirði og geymt þar á meðan sparnaðarfárið gengur yfir. Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta lágkúra og smekkleysi af verstu sort og gef ekki mikið fyrir peningastjórnun af þessu tagi. Ég þekki málið ekki til hlítar en finnst undarleg forgangsröðun að koma svona fram við gamalt fólk. Gæti Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar sparað á öðrum sviðum?
Mig langar að fá það á hreint hvað mikið það mun kosta að halda deildinni opinni? Við ættum kannski að safna pening til að borga þessa aura sem upp á vantar. Hið opinbera hefur hingað til ekki fúlsað við söfnunarfé þegar kaupa á tæki og tól. Þetta er svipað. Ég skora Kvenfélögin, Kiwanis, Lions, Oddfellow og Frímúrara að leggja málinu lið.
Þarna er enn eitt dæmið um hvað við komum illa fram við þá sem minnst mega sín og þá sem ekki verja sig sjálfir. Eigum við að láta það viðgangast að fólk sé flutt nauðungaflutningum í sparnaðarskyni eða eigum við að koma þeim sem ekki geta varið sig sjálfir til hjálpar?
Athugasemdir
Vá hvað ég er sammála þessu. Það er illa komið fram við þá er byggðu upp landið!
Opnum vefsíðu með söfnun fyrir þetta dæmi, svei mér þá.
Gústi (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 17:32
Alveg er ég sammála þér um þetta mál - ég á ekki til orð - það getur ekki verið að það séu ekki til önnur úrræði en þessi niðurskurður. þetta er niðurlæging við aldraða einstaklinga, komið framm við þá eins og plöntu sem á að færa til og frá í garðinum án þess að spá í afleiðingarnar - þetta er nú ekki kannski gott dæmi en ég er bara gáttuð og ösku reið yfir þessu.......................
Þóra (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 17:47
Bloggaði um þetta líka í gær. Ég á ekki orð yfir þessu. Arg.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.5.2008 kl. 18:27
Þetta er til háborinnar skammar, eins og þú segir. Reyndar ekkert einsdæmi. Það er svakalegt að fylgjast með meðferðinni á gömlu fólki. Síðan er ég ekki alveg að skilja hvaða sparnaðarelement er í þessu. Þau þurfa eftir sem áður umönnun þannig að einungis er verið að flytja peningana á milli vasa í staðinn fyrir að spara raunverulega peninga. Reyndar, þar sem tilfærslan kostar peninga, er að öllum líkindum verið að auka kostnað í heilbrigðiskerfinu - svona á heildina litið.
katrín anna (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 18:52
Þessi ákvörðun misviturra embættismanna er þeim til skammar til eilífðarnóns.Skyldi Heilbrigðisráðherran hafa verið með puttana þarna.Óhæft fólk er í ótrúlegustu embættum hjá ríkinu.Hver eða hverjir stungu uppá þessari mannvonsku.?
jensen (IP-tala skráð) 8.5.2008 kl. 21:01
Þetta er stefna frjálshyggjunnar, þeir svelta heilbrigðiskerfið þangað til almenningur er orðinn svo þreyttur á því að það fer að hljóma alveg rosalega vel að einkavæða það. Síðan er það selt í hendurnar á gróðabröskurum sem bjóða uppá góða þjónustu fyrir þá sem hafa efni á því en restin má lepja dauðann úr skel.
Síðan gera þeir það sama við skólana . . . . you get the plot.
Hættum að kjósa þetta pakk á þing!!!
Bestu kveðjur
Snorri Sturluson
Brooklyn, NY
Snorri Sturluson, 9.5.2008 kl. 01:10
Ég varð brjálaður þegar ég sá þessa frétt. En, við eigum ekki að safna einu eða neinu. Peningar eru nógir til; t.d. mætti hugsa sér - til þess að leysa þetta einstaka tilvik að stöðva alla risnu í heilbrigðisráðuneytinu í eitt ár. Svo er bara að athuga síðar hvar ætti að fjölga rúmum fyrir afganginn.
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 09:33
Styð þessa tillögu þína Matthildur, og er sammála því að þetta er til háborinnar skammar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.5.2008 kl. 09:57
Sammála, Matta. Þetta er til skammar. Raunar finnst mér valdníðsla hafa aukist mikið undanfarin ár í stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar.
Theódór Norðkvist, 9.5.2008 kl. 11:59
Mikið rosalega er ég sammála þér Matthildur, mér finnst þetta bara sína tilfinningaleysi og vanþroska hjá því fólki sem ræður þessu að það skuli ekki gera sér grein fyrir því að gamalt fólk er ennþá að lifa lífinu og það er til háborinnar skammar að ætla bara að henda þeim til og frá eftir einhverjum duttlungum ráðamanna
Sigrún Sigurðardóttir, 9.5.2008 kl. 13:45
Ömurlegt. Sjálfsvirðing gamallar konu skiptir þá sem þessu stjórna tæpast meira en þeirra eigin sjálfsvirðing. Sem þeir fórna á þessu altari hagræðingarinnar.
Arg!
Ylfa Mist Helgadóttir, 10.5.2008 kl. 14:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.