28.5.2009 | 13:10
Vestfirðingar heimta aukavinnu í Reykjavík
Vestfirðingar eru ekki af baki dottnir núna í kreppunni frekar en fyrri daginn. Nú ferðast þeir um í hópum og heimta aukavinnu, og það í Reykjavík. Forsaga málsins er sú að KómedíuhöfðinginnElfar Logi fékk þá hugmynd að setja upp leikrit sem byggði á lögum Jónasar og Jóns Múla Árnasona. Eftir nokkurt japl, jamm og fuður var verkið, Við heimtum aukavinnu, frumsýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði undir merkjum Litla Leikklúbbsins. Um Hvítasunnuhelgina verður þetta verk flutt í Reykjavík.
Það er skemmst frá því að segja að þessir tónleika með leikrænu ívafi, sem ég kýs að kalla svo, slógu rækilega í gegn og var uppselt á nánast allar 10 sýningarnar. Ég sá nú ekki nema þrjár af þeim, en get staðfest að þetta er hin besta skemmtun. Það skapaðist skemmtileg stemning í salnum þar sem áhorfendur klöppuðu með eða tóku undir sönginn, enda textanum varpað á vegg. Hvort sem um ræðir stórskemmtilegar útsetningar Guðmundar Hjaltasonar hjómsveitarstjóra, sem þarf ekkert að gjalda fyrir að vera maðurinn minn í þessari umfjöllun, stórkostlegur söngur og sviðsframkoma Hjördísar Þráinsdóttur söngkonu hljómsveitarinnar, hinir þjóðlegu búningar, skemmtileg sviðmynd eða fumlaus og vandaður leikur og söngur hjá félögum Litla Leikklúbbsins þá gekk allt upp. Sýningin er létt og skemmtileg og lögin ómuðu í minningunni í marga daga á eftir.
Ég læt fylgja nokkrar myndir og skora á ykkur að láta þessa sýningu ekki fram hjá ykkur fara, þið munið ekki sjá eftir þessari kvöldstund.
Gullhömrum í Grafarholti
Föstudaginn 29. maí kl.21.00
Laugardaginn 30. maí kl.20.00 og 22.00
Miðaverð aðeins 2.500. krónur
Miðasölusími: 6188269
Mig langar að benda ykkur á að fylgjast sérstaklega með þóttafullu söngkonunni sem finnst
hún vera agalega fræg. Og það tekur sig enn upp gamalt bros þegar lög eins og dirrindí, bara dirrindí, fröken Reykjavík eða þá stundi Mundi skjóta allt í einu upp kollinum og byrja að syngja sig sjálf inn í höfðinu á mér.
Góða skemmtun!
Athugasemdir
Ég ER ógeðslega fræg! =oP
Söngkonan (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 13:53
Ég fór á fyrri sýninguna í kvöld, og skemmti mér konunglega. Enda ekki við öðru að búast þegar Litli leikklúbburinn á í hlut.
Sigríður Jósefsdóttir, 30.5.2009 kl. 22:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.