Hvað er friður?

Er friður það að geta farið um heiminn án þess að eiga á hættu að vera skotinn?  Hvort sem þú ert að fara til vinnu eða skóla í næsta nágreni, eða ferðast um í leit að ævintýrum?    Er friðsamur heimur, heimur án landamæra? Það er jú draumur margra.  Draumurinn um frið er kannski ekki eitthvað sem við eigum eftir að upplifa, en samt einn af þessum draumum sem við eigum að láta okkur dreyma.  Einn af þessum draumunum sem gerir okkur betri.

Eða er friður kannski hugarástand.  Einhver tilfinning sem býr innra með okkur?  Líðan sem á sér rætur djúpt í hugskotum okkar.  Kemur friðurinn best fram í því hvernig við komum fram við aðra? Ég held að friðurinn byrji heima.  Heima, í samskiptum okkar við maka og börn.  Og í því hvernig börnin sjá okkur koma fram við aðra, því þau læra það sem fyrir þeim er haft.  Stundum eigum við mannfólkið það til að vera svo upptekin af því að berjast fyrir friði eða mannréttindum að við gleymum að hugsa um okkur sjálf.  Hugsa um samskipti okkar við annað fólk.  Spáum ekkert í það hvort við erum óþolandi friðarspillar eða ljúfir diplómatar.  Við höfum ekki tíma til fyrir svoleiði smotteri.  Enda upptekin við að bjarga heiminum.  Við gleymum því  stundum  að við erum það vanmáttug að það eina sem við getum breytt er okkar líðan og okkar sjónarhorn.  Það kemur ekki að sjálfu sér að líða vel og vera sátt.  Að geta látið sig varða um annað fólk án þess þó að láta allt heimsins böl buga okkur.  Það er vinna að líða vel og til þess þarf ákveðna tækni.   Eitt sem við getum gert -og er alveg frítt- er að horfa á spaugilegu hliðar tilverunnar.   Það að geta hlegið að vandræðum sínum leysir í sjálfu sér ekki vandann en þér líður betur og þú finnur frið.  Og ef þú finnur frið þá eru vandamálin ekki eins stór og lausnin er þá oft innan seilingar.Því ekki að líta í spegilinn og leita þar eftir friði  þessi jól....... og hlægja duglega.      

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ástþór Magnússon Wium

Góð grein hjá þér. Ég skrifaði greinar á þorláksmessu og aðfangadag um svipað málefni:

 

Sprengjuregn í friðargöngu, friður á Álftanesi

Það var ekki mjög friðsamt á Ingólfstorgi eftir friðargöngu frá Hlemmi. Saman með köldum vindum og rigningarslyddu dundi á fólkinu pólitískt sprengjuregn Birnu Þórðardóttur ræðumanns.

Þrátt fyrir að Birna hafi látið nokkuð ófriðlega í ræðustólnum, þá kom hún inná nokkra ágæta púnkta eins og þá staðreynd að friður þrífst ekki við óréttlæti.

Mér fannst það t.d. mjög óréttmætt þegar forráðamenn hinnar árlegu friðargöngu meinuðu mér að segja nokkur orð þarna á Ingólfstorgi þremur dögum eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur tók fyrir kröfu ákæruvaldsins að dæma mig í 16 ára fangelsi fyrir að benda á hættuna af því að flytja vopn og hermenn til Írak í flugvélum Icelandair.

Varnarorð mín áttu ekki uppá pallborðið hvorki hjá forsætis- né utanríkisráðherra, sem sendu ríkislögreglustjórann að sækja mig ofaní miðbæ um miðja nótt og stinga mér í fangelsi hið snarasta. Á Litla Hrauni fékk ég að dúsa í marga daga í algerri einangrun á milli þess að vera fluttur inná skrifstofur ríkislögreglustjórans í þriðju gráðu yfirheyrslur þar sem mér voru gerð gylliboð um að bera orð mín til baka því annars yrði þaggað niður í mér með 16 ára fangelsi var fullyrt!

Birna minntist á þetta með vopnaflutningana, eins og ég vildi gera hér um árið, og gefa fundargestum smá innsýn í hvað gekk á þarna hjá lögreglunni. En forráðamenn friðargöngunnar meinuðu mér alfarið að tjá mig, ekki einu sinni í þrjár mínútur. Þá mætti ég á Ingólfstorg klæddur í jólasveinabúning og með trefil fyrir talandanum. Þannig stóð ég fyrir aftan ræðumanninn. Þetta vakti litla hrifningu forráðamanna friðargöngunnar sem sumir reyndu að stugga mér í burtu best þeir gátu.

Birna kom einnig inná það í ræðu sinni að að eiga í nokkrum vandræðum með að finna út hvað friður er. Hér get ég hjálpað Birnu og er hún velkomin hvenær sem er í friðarsetrið Vogaseli 1 til að leita aðstoðar Friðar 2000 við þessari spurningu. Kannski hún sjái til þess að Friður 2000 fái að koma að friðargöngunni næsta ár, og þá get ég upplýst fundarmenn um hvað friður er.

Bogi og friðarkúlanRaunverulegan frið í hjarta fann ég hinsvegar í vikunnni á Álftanesi, hjá honum Boga Jónssyni þúsundþjalarsmið. Saknaði þess að sjá ekki Birnu þar þegar Bogi afhjúpaði friðarkúluna sem á eru rituð tákn helstu trúarbragða heims.

Friðarkúlan á sér uppruna í draum Boga fyrir nokkrum árum þar sem honum var falið að gera einhvern hlut til að túlka á sinn hátt að við erum öll íbúar í sömu íbúð, jörðinni okkar. Á friðarkúlunni eru raufar sem fólk getur sett í óskir sínar um frið á jörð og betra líf. Í stuttu ávarpi sem Bogi hélt við athöfnina sagði hann: "Reyndu á hverjum degi að búa þér til fallega fortíð".

Ég lagði til ljósmyndasamkeppni um friðarkúluna. Besta myndin, eða bestu myndirnar, yrðu síðan valdar til útgáfu jólakorta um næstu jól. Ég hef heitið Boga stuðningi mínum við að koma upp vefsíðu þar sem jafnt áhuga- sem og atvinnuljósmyndarar geta sent inn myndir og þar hægt að velja bestu myndirnar af friðarkúlunni. Ég er einnig tilbúinn að skoða þann möguleika að styrkja útgáfu jólakortanna sé þess óskað. Við ræddum að ljósmyndakeppnin yrði í gangi frammá næsta haust til að sem flestir hefðu tækifæri til þátttöku og hægt að ljósmynda friðarkúluna við allar árstíðir og birtuskilyrði.

Ég skora á sem flesta að skoða friðarkúluna og setja þar inn óskir sínar og bænir. Friðarkúlan er á einstaklega fallegum stað við bæinn Hlíði á Álftanesi.

 

Ljós til friðar

Ég sá jörðina í fjarska
geislandi sem sólin
fólk streymdi úr húsum
hver með kertaljós friðar
þetta voru boð til alheims
boð um frið á jörð

(Sýn úr eigin hugleiðslu - Virkjum Bessastaði 1996)

Ástþór Magnússon Wium, 25.12.2008 kl. 14:22

2 identicon

Matta mín. Eins og þér er tamt kemur þú að kjarna málsins. Ég er friðarsinni og vil hafa ró í mínum hugarskotum. En Ástþór, þú fórst alveg með að bera saman pólitískan pistil þinn og flottan boðskap Möttu. Komm on maður, þú þyrjar vel með orðunum; Góð grein hjá þér. En svo eyðilegðirðu stemninguna. Veldu annan stað fyrir slag við Birnu, forsætisráðherra og ríkislögreglustjóra. Ég vil helst sjá friðinn í mynd af þér í jólasveinabúningnum með trefilinn um talandann. Það er Kodak moment og já kannski ein í ljósmyndasamkeppnina þína :)

Hér er ljóð eftir mig.

Ég sá þig tilsýndar

eitthvað lá í loftinu

það sótti að mér minning

pabbi,mamma og friður

engin systkyn, friðarspillar

bara ég, pabbi, mamma og friður

svo vaknaði ég, draumur, svindl

en ég sá þig samt tilsýndar

Með von um frið

Gaui.Þ

Gaui.Þ (IP-tala skráð) 30.12.2008 kl. 21:59

3 Smámynd: Herdís Alberta Jónsdóttir

Takk fyrir þetta Matta,  það er nauðsynlegt að láta minna sig á það reglulega að hugsa vel um sína nánustu og sjálfan sig, ef allt er í góða þar er væntanlega meiri orka til þess að hjálpa öðrum.

Herdís Alberta Jónsdóttir, 8.1.2009 kl. 09:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband