17.10.2007 | 23:31
Loks geðorð sem ég skil, þekki og nota
Þriðja geðorðið Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir get ég skilið. Raunar hef ég alltaf verið að læra og býst fastlega við að læra fram á grafarbakkann. í það minnsta ef minnið fer ekkert að skána. Ég er nefnilega svolítið gleymin stundum og þarf því að læra nöfn, símanúmer og þess háttar aftur og aftur. Man ekki hvar ég lagði bílnum eða hvort ég var á bílnum. En það er bara gaman að koma sjálfum sér á óvart. Ég býst við að þetta sé það sem átt er við í geðorðinu góða er þetta ekki líka stundum kallað símenntun.
Ég er alltaf svolítið veik fyrir námskeiðum og hef farið að fleiri en ég hef tölu á. Þá erum við að tala um allt frá virðulegum námskeið um rekstur, bókhald, tölvur, markaðsfræði, stjórnun, rökfræði, stærðfræði að lista og handverks námskeiðum á borð við mósaík, þæfingu, glerbræðslu, teikningu, tálgun, silfur- og eldsmíði svo eitthvað sé nefnt. Að vísu hafa þessi námskeið skilið mis mikið eftir sig. Einsog um árið þegar ég fór að læra tímastjórnun en gaf mér aldrei tíma til að innleiða vinnubrögðin sem mér var kennt og svei mér þá ef mappan er ekki enn í stóra staflanum lengst til vinstri á skrifborðinu mínu. Ólesin.
Þetta var náttúrulega allt of jákvætt blogg ég skil ekki í mér að hafa ekki komið auga á neitt neikvætt. Ég lofa að bæta mig enda næsta geðorð vel til þess fallið.
Bloggar | Breytt 18.10.2007 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.10.2007 | 00:12
Geðorð númer tvö
Ég vissi það og ég sagði það í gær. Geðorð númer tvö er ekki mikið skárra en númer eitt. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um. Þetta er auðvitað runnið undan rifjum einhverrar karlrembu. Karlrembu sem sérhæfir sig í að brjóta niður fólk með ofsóknaræði. Það sér hver kona að í þessu felast dulin skilaboð til kvenna og karla.
Skýr skilaboð um þjónustulund og undirgefni. Með öðrum orðum ef þú hleður ekki undir rassgatið á því sem þér þykir vænt um þá...... Það kemur raunar ekki fram hvað gerist sem er auðvitað æðsta stig hótunar. Það er ekkert óttalegra en það ókunnuga. Ekki síst fyrir þá sem eru smá klikk í hausnum.
Auðvitað kemur mér þetta ekkert á óvart. Þetta er einungis hluti af stærra máli, hluti af stóra samsærinu. Því forna samsæri sem ól af sér það skipulag að láta helming mannkyns vinna frítt eða í það minnsta fyrir smotterí. Konur hafa jú alltaf borðið hitann og þungann af umönnun barna, sjúkra og aldraðra. ýmist í illa launaðri þegnskylduvinnu eða ólaunaðri fjölskyldu umönnun. Hvað munar þær um að bæta á öllu því sem þeim þykir vænt um. Og því sem þeim, sem þeim þykir vænt um, þykir vænt um.
Tökum dæmi. Konu þykir vænt um foreldra sína, býður þeim í mat og stjanar við þau á alla kanta. Karli þykir vænt um foreldra sína og býður þeim í mat og konan hans eldar matinn og stjanar við þau. Í báðum tilvikum er konan svo heppin að fá að gefa af sér og hlýtur að launum aðdáun og þakklæti en enga kaupréttarsamninga.
Ég vissi að það væri óráð að lesa fleiri geðorð, en ég réði ekki við forvitni mína. Nú er ég aftur á móti alveg sannfærð um að þessi geðorð séu ekki öll sem þau eru séð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.10.2007 | 01:24
Er léttara að vera jákvæður?
Þessa dagana er mikið skrifað um geð enda alþjóða geðheilbrigðisdagurinn, sem er einskonar afmæli geðsins, þann 27. október næst komandi. Og þar sem ég er ein af þessum heppnu, sem hafa dottið í þunglyndi, er er mér ljúft og skylt að fjalla um geðorðin 10. Þessi gullkorn sem prýða nú framhliðar ísskápa landsmanna, til að létta okkur lífið og gera okkur kátari.
Fyrsta geðorðið er: Hugsaðu jákvætt, það er léttara. Léttara? Léttara fyrir hvern? Ekki fyrir mig það er víst. Það er miklu auðveldara að vera neikvæður og auk þess miklu skemmtilegra. Það er nefnilega ekkert gaman að vera góður og jákvæður. Hafið þið ekki tekið eftir því þegar þið eruð saman komin í hóp hvað það er litlaust og leiðinlegt þegar allir eru jákvæðir? Sammála. Þögulir.
Hugsum okkur til dæmis umræðuna um REI og kaupréttarsamningana. Þessi umræða væri ekki svipur hjá sjón ef allir færu eftir þessu blessaða geðorði númer eitt. Hvað um kvótann, loftslagsbreytingarnar, okurvextina og dómana í kynferðisbrotamálum. Nei endalaus jákvæðni drepur niður eðlilega umræðu og er algjörlega fráleit hugmynd. Við myndum missa alla fréttatímana, blöðin, bloggið og vera dæmd til að horfa á eilífa Spaugstofu. Hjálpi okkur hamingjan.
Geðorð númer eitt er um tóma draumóra og í raun illa gert að ota svona nokkru að okkur þunglynda fólkinu. Okkur líður auðvitað best þegar lífið er pínulítið ómögulegt. Sá sem samdi þetta hefur örugglega aldrei spáð í það hvað það getur verið gaman að hafa allt á hornum sér. Verið nú ekkert að misskilja mig það er alveg hægt að vera neikvæður og skemmtilegur. Neikvæður og líða vel. það má segja að ég hafi komist að þeirri niðurstöðu að það sé mjög jákvætt að vera neikvæður.
Af augljósum ástæðum treysti ég mér ekki til að lesa fleiri geðorð að sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.10.2007 | 11:05
Pöddufælni á Mogganum
Þær eru skrítnar og skemmtilegar þessar pöddufréttir sem við höfum fengið að lesa á mbl.is að undanförnu. Ég hef ákveðið að láta þessar fréttir ekki slá mig út af laginu. Ætla ekki að láta umfjöllun um hræðilegar en sjaldgæfar sýkingar ferðalanga í Bandaríkjunum hræða mig frá því að ferðast. Jafnvel þó ég sé hrædd við köngulær.
Ég er með tilgátu um hvaðan þessar fréttir koma. Fréttamaðurinn eða fréttakonan sem skrifar um pöddur og sýkingar er með fælni. Skordýrafælni, veirufælni og Bandaríkjafælni. Góðu fréttirnar eru þær að fælni er að flestra mati áunnin eða lærð og það er hægt að lækna hana. Viðkomandi ætti að skella sér í skordýraskoðunarferð til Bandaríkjanna.
Í dái eftir moskítóbit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2007 | 15:14
Óbeisluð fegurð í bíó
Þann 5. október verður frumsýning á heimildarmynd um Óbeislaða Fegurð á kvikmyndahátíð Reykjavíkur. Myndin fjallar um óvenjulega fegurðarsamkeppni sem haldin var í félagsheimilinu í Hnífsdal fyrr á árinu. Fegurðarsamkeppni sem sýnir fram á að í raun sé ekki hægt að keppa í fegurð. Keppni sem ætlað var að vekja fólk til umhugsunar um útlitskröfur nútímans og fékk nokkra athygli.
Þetta byrjaði allt yfir kaffibolla á Langa Manga. Þar sátum við nokkrir vinir og vorum að ræða um útlitskröfur samtímans, en umræðan hafði kviknað eftir frétt á bb.is um fyrirhugaða fegurðarsamkeppni á Vestfjörðum. Við vorum langt því frá sammála um hvort keppnir sem þessar væru boðlegar. Sumum fannst sem þetta gæti haft jákvæð áhrif á þátttakendur en ég fann þessu fyrirbæri allt til foráttu. Þetta væru gripasýningar. Enda alin upp í sveit og sá glöggt hliðstæðuna við hrútasýningarnar sem haldnar voru í sveitinni í gamla daga. Mín niðurstaða var sú að fegurðarsamkeppnir væru til þess eins gerðar að selja sokkabuxur og krem, auk þess sem þær kenndu ungu fólki að meira máli skipti að vera falleg en klár.
Þegar við höfðum velt því fyrir okkur um stund hverjir hefðu leyfi til að setja fegurðarstaðla og af hverju, varð þessi andófskennda hugmynd til. Við ákváðum að taka okkur það leyfi að búa til fegurðarsamkeppni eftir okkar höfði. Eftir marga kaffibolla, nokkra bjóra og fáein léttvínsglös fundum við það út að reglurnar þyrftu einungis að vera tvær. Þátttakendur yrðu að vera komnir af barnsaldri og að vera sem upprunalegastir. Bæði kynin gætu þekið þátt. Grá hár, slappur magi, loðið bak, hrukkur og önnur merki þess að fólk hefði lifað væru falleg á sinn hátt. Vegsama skyldi venjulega fólkið.
Við settum saman leyndardómsfulla fréttatilkynningu og sendum á bb.is og ruv.is. Þetta var meira gert í prakkaraskap og við vildum sjá hvað við kæmumst langt með uppátækið. Okkur þótti viðbúið að einhverjir myndu móðgast og að þetta þætti hið freklega dónlalegt framtak. Núna yrðum við skömmuð fyrir andfélagslega hegðun og að vera ljótir, afbrýðisamir og loðnir femínistar.
En það var öðru nær, fréttin breiddist út eins og eldur í sinu og áður en ég gat snúið mér í hálfan hring var ég komin í hringiðu blaða og útvarpsviðtala, og það á útlensku. Ég sem tala bara slangur ensku. AFP, BBC, ABC. Síminn þagnaði ekki og á endanum vissi ég varla í hvorn fótinn ég ætti að stíga.
Það var svo eitt kvöld í Beirút, þegar Tina Naccaace var að hlusta á BBC World og þvo upp eftir matinn í heima hjá sér, að hún heyrði viðtal við einhverja konu frá Íslandi um þessa ótrúlegu keppni í Óbeislaðri Fegurð. Hún hafði strax samband við Hrafnhildi Gunnarsdóttur og úr varð að þær stöllur gerðu heimildarmynd.
Þarna var ekki aftur snúið. Hrekkurinn var orðin að viðburði og við einhentum okkur í framkvæmdina. Þar sem keppnin fékk svona mikla athygli sáum við strax að hægt væri að græða á því pening og ákváðum að nota ágóðann til að styrkja Sólstafi á Vestfjörðum, sem er systurfélag Stígamóta. Það má kalla þetta eins konar peningaþvætti því ekki þótti okkur fýsilegt að eiga óhreinan fegurðarsamkeppnisgróða. Ekki var tiltökumál að fá fólk til liðs við okkur. Keppendur gáfu sig fram, af báðum kynjum, öllum stærðum og á öllum aldri. Dómarar voru sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum s.s. íslenska hestinum, íslenskum lögum, skurðgreftri, hefðbundnum fegurðarkeppnum kvenna og árulestri. Nafnbætur keppenda voru heldur ekki af verri endanum. Persónuleiki Íslands, útlendingur, funi, meikdolla og óbeisluð fegurð svo einhverjir séu nefndir. Allt of langt mál væri að telja upp allt sem gerðist þetta kvöld og vil ég benda áhugasömum á heimasíður keppninnar á íslensku og á ensku. Allir voru boðnir og búnir að leggja okkur lið.
Núna er komið að stóru stundinni. Ég er að fara á frumsýningu og nettur hrollur fer um mig því ég man auðvitað ekki helmingin af því sem ég sagði. Á keppninni sjálfri myndaðist ótrúlega sérstök og góð stemning sem ég geri ráð fyrir að endurupplifa á myndinni. Látið þessa mynd ekki fram hjá ykkur fara. Sjáumst í bíó.
Bloggar | Breytt 4.10.2007 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.9.2007 | 00:30
Hrós vikunnar fær Grjóthrun í Hólshreppi.
Í endalausri leit minni að skemmtilegum uppákomum sem gefa tilverunni líf og lit, dett ég stundum niður á atburð eða uppákomu sem verðskulda hrós vikunnar. Til að tryggja mig fyrir hugsanlegri gagnrýni í framtíðinni skal tekið fram að ef vikulegt hrós er ekki birt vikulegt, þýðir það ekki að enginn eða ekkert eigi hrós skilið heldur einungis að þá vikuna hef ég ekki verið að fylgjast með af áhuga. Að þessu sinni fer hrós vikunnar til Grjóthruns í Hólshreppi. Þeir örfáu sem ekki þekkja hunið eru hér með upplýstir um að Grjóthrun í Hólshreppi er landsfræg hljómsveit frá Bolungarvík sem hefur að eigin sögn spilað tvisvar í sjónvarpinu.
Það var skemmtileg stemning á Langa Manga í gærkvöldi þegar æringjarnir í Hruninu tóku lagið. Þó fleiri hefðu komist að en vildu og grúppíurnar hafi stungið af snemma heppnaðist uppákoman vel. Ráðgjafi hljómsveitarinnar og æðsta gúppía dreifði söngbókum með textum upplýsingum um meðlimi hljómsveitarinnar. Þar kemur meðal annars fram að Haraldur Ringsted er slagverksleikari og kyntröll hópsins, Grímur Atlason hugmyndafræðingur og bæjarstjóri í frístundum, Jón Elíasson slökunarsérfræðingur og slaggígjuleikari og síðast en ekki síst má telja Lýð lækni Árnason málpípu og kuklara. Þetta kvöld höfðu þeir liðsauka en Hrólfur Vagnsson spilaði einnig með á nikku .
Það er ekki auðvelt að skilgreina tónlistarstefnu hjá svona djúpu bandi því ætla ég að láta það alveg vera. þeir eiga þó sérstakt hrós skilið fyrir kímni textagerð, jafnvel í textum um háalvarleg mál. Eins og áður sagði flokkast þessi hljómsveit ekki auðveldlega og líkist ekki neinni annarri. En gamla pönkaranum í mér var oft skemmt þetta kvöld. Hvort sem söngvarinn Lýður gerir sér grein fyrir því eða ekki þá hefur hann ekki ósvipaða rödd og Robert Smith. Það tengist Lýði á annan skemmtilega klikkaðan hátt því eins og flestir vita syngur Robert þessi í hljómsveitinni the Cure. Já, hann Lýður nær meira að segja að ískrinu þó hann fari sparlega með það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.9.2007 | 00:36
Hverjir vinna við að ljúga?
Einhverju sinni sagði ágæt kona að lögmenn og prestar ættu það sameiginlegt að þeir ynnu við að ljúga. Ég gaf svo sem ekki mikið fyrir þessa yfirlýsingu, enda trúir kona þessi á blómálfa og fleira í þeim dúr og ég þekki hana af stórum orðum. Ekki misskilja mig, mér finnst hún frábær. Nú hefur nokkur umræða verið á blogginu og í þjóðfélaginu öllu um væga dóma yfir hræðilegum glæpamönnum. Og einhverjir hafa hneykslast á að verjendur geti fengið sig til að vinna fyrir þá. Þetta fékk mig til að hugsa í alvöru um þessa setningu. Hverjir vinna við lygi?
Fyrst koma upp í hugann jólasveinar. Þeir eru auðvitað ekki til, en til eru menn sem dulbúa sig sem jólasveina, ganga um bæinn um jólaleytið, syngjandi með poka á baki og fá greitt fyrir það. Það er mjög auðvelt að skera úr um þeirra starf. Atvinnulygarar.
Leikarar fást við það að þykjast vera einhverjir aðrir en þeir eru í raun og veru. Þeir ganga mjög langt og smíða jafnvel heilu og hálfu húsin til að styðja lygina. Þeir eru klárlega eitt augljósasta dæmið um atvinnulygara. Það merkilega er að engum finnst ljótt af leikurunum að ljúga, ekki einu sinni þeim sjálfum. Það er því augljóst leikarar vinna sem lygarar.
Prestar segja okkur að Guð sé til og flestir þeirra halda því jafnvel fram að hún sé karlmaður. Í það minnsta er talað um hana sem föður í flestu ef ekki öllu kynningarefni kirkjunnar. Skynsemin segir okkur að hún Guð sé auðvitað ekkert til, nema í kollinum á okkur sumum, í næstu skúffu við jólasveininn. Niðurstaðan er því sú að prestar eru lygarar að atvinnu.
Lögmenn eru auðvitað síljúgandi, það höfum við margoft séð í sjónvarpinu og sumir eiga líka persónulegar sögur því til stuðnings. Það er nefnilega líka lygi að láta vera að segja frá. En þeirra vinna gengur ekki alltaf út á sannleikann og því ekkert sjálfsagðara en fella yfir þeim þann dóm að þeir séu í raun atvinnulygarar.
Rithöfundar eru kannski mestu lygararnir. þeir spinna upp lygasögur svo trúlegar að við teljum okkur þekkja sögupersónurnar þeirra. Þekkjum þær og þykir vænt um þær. Fyllumst jafnvel söknuði og sorg þegar bókin er búin og við vökum upp við það að við munum líklega aldrei hitta persónuna aftur. það þarf ekki að velta því meira fyrir sér, lygarar.
Ég sé að það er vandasamt að finna starf sem ekki krefst lygahæfileika enda hef ég ekki enn talið upp, snyrtifræðinga, hárgreiðslufólk, ljósmyndara og fleiri sem vinna við að ljúga með því að breyta. Þetta sannar bara enn og aftur að lífið er alls ekki einfalt og það getur verið satt að eitthvað sé lygi, og öfugt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.9.2007 | 15:16
Glæpur og refsing
Ef þetta er réttlæti þá skil ég ekki orðið réttlæti. Enn á ný berast okkur fréttir af dómi í ofbeldismáli hvar ofbeldismaðurinn játar eða er fundinn sekur en sleppur ótrúlega vel. Nú æta ég ekki að benda á neinn sérstakan sökudólg en það er ekkert launungarmál að stórum hluta þjóðarinnar er gróflega misboðið hvað fólk fær stutta dóma í ofbeldismálum. Hvort sem um er að ræða kynferðisbrot eða önnur ofbeldismál.
Allir virðast vilja þyngja dóma en ekkert gerist. Hvað þarf að gera til að breyta þessu? Þarf að breyta refsirammanum eða er nægjanlegt svigrúm til að dæma fólk til þyngri refsinga. Einhvers staðar heyrði ég því fleygt að ekki mætti þyngja dóma vegna refsireglu. Með því að þyngja dóma væri verið að mismuna þeim sem fremdu glæpi þannig að ef einn fékk skilorðsbundin dóm má ekki dæma annan í fangelsi fyrir sambærilegt brot. Ef þetta er raunin þá hljótum við að þurfa að breyta reglunum.
Refsingar í fíkniefnamálum eru frekar þungar. Væntanlega eru þær þungar vegna þess að það var ákveðið að hafa refsingar þungar. Er ekki tími til kominn að gera það sem gera þarf og breyta lögunum eða búa til ný?
Skilorð fyrir árás á sambýliskonu sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2007 | 08:43
Er nema von að eitthvað láti undan
Er nema von að eitthvað láti undan þegar stanslaus áróður lemur á konum og körlum um að þau líti ekki nógu vel út. Sérstaklega verða konur fyrir þessari brengluðu útlitsáráttu. Það er varla hægt að horfa á sjónvarp eða kíkja í blað án þess að við konu blasi auglýsing um útlit. Hvernig hún gæti ilmað betur, verið fallegri á litinn, fengið fallegra hár, fallegri húð eða verið grennri. Með þessum auglýsingum eru gjarnan myndir sem búið er að breyta.
Þetta er lífshættulegur áróður sem ekki linnir. Jafnvel þó flestir viti innst inni að það skiptir minnstu máli fyrir lífshamingjuna hvort þú er ljósbrún eða hvít á litinn, hvort þú notar rándýrt krem sem á að losa þig við hrukkur eða hvort þú tekur af þér nokkur aukakíló.
Fegurðin mælist ekki í fituprósentu sögðum við í Óbeislaðri Fegurð það eru orð að sönnu. Vonandi verða þessar myndir til að vekja einhverja til umhugsunar, sérstaklega þau sem stýra fyrirsætubransanum.
Einu tók ég þó eftir í fréttunum í gær, en þar sagði ljósmyndarinn að þessi kona þætti líta vel út í fötum. Þetta er auðvitað merki um að tískuhönnuðir eiga langt i land og eru í raun ekki að hanna föt á fólk, þau eru að hanna föt eða á ég að segja listaverk á einhverja afskræmingu af manneskju sem ekki er til í raunveruleikanum. Og til að sýna afraksturinn er nokkrum fyrirsætum fórnað.
Auglýsing vekur óhug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.9.2007 | 13:29
Valfrelsiskvíði
Suma daga veit ég ekki hvað ég vil. Það er alveg sama hvort um er að ræða stóru eða litlu málin, allt er snúið og flókið. Þetta er víst stundum kallað valfrelsiskvíði.
Líklega þekkið þið þessa tilfinningu, eða hver hefur ekki staðið í búðinni, ráðþrota og hefur ekki hugmynd um hvað á að kaupa í matinn. Ég var að vísu búin að þróa ágætt kerfi, ég kíkti bara í körfuna hjá næsta manni og stal hans hugmynd. Oftast gengur það upp en suma daga virtist einhver tregða liggja í loftinu og allir hinir í búðinni þvælast um með spurnarsvip. Kíkja í körfurnar hver hjá öðrum í von um hjálp. Aðrir dagar eru góðir og kona getur auðveldlega valið úr nokkrum hugmyndum. Nú svo kemur fyrir að mér dettur eitthvað í hug alveg sjálfri, en það er sjaldan. Kannski munu verslanirnar hérna koma til móts við okkur og hengja upp skilti með tillögum.
Þessar grænmetisætur þurfa ekki að kaupa í matinn. Þær gætu þó þurft að hafa áhyggjur af því að verða ekki í matinn.
Annað sem getur vafist fyrir okkur fólkinu með valfrelsiskvíðann er að finna föt til að fara í. Ég stend mínútum saman fyrir framan stóra hrúgu af svörtum fötum og get ekki ákveðið í hvaða svörtu föt ég á að fara í þann daginn. Annars er ég frekar heppin því ég þarf oftast ekki að spá í lit, heldur einungis snið og einangrunargildi. Mínir dagar eru langflestir svartir, þó ég spái stundum í mórautt.
Hvort er fallegra að vera í svörtu eða mórauðu?
Sumir eiga föt í öllum litum, mikið vorkenni ég þeim. Önnur hlið á fatavandamálinu er að kaupa föt. Það er alveg ferlega erfitt, úrvalið er allt of mikið og fötin sem mér finnast flott virðast ekki passa á mig. Það er engu líkara en að ég hafi valið mér fatasmekk fyrir tuttugu kílóum síðan og álíka mörgum árum og sé í dag að reyna að fá þetta til að ganga upp. Auðvitað gengur það ekkert upp og ég ætti engin föt ef Sigga og Hrefna í fatabúðinni Jóni og Gunnu hefðu ekki útsjónasemi í að koma mér í eitthvað sem passar.
Að lokum get ég ekki látið hjá líða að tala um hárgreiðslu og hárlit. í gegn um árin hef ég prufað alla liti nema blátt og grænt. Að vísu fékk ég græna slikju í hárið einu sinni eftir miklar litatilraunir sem mér þótti bara nokkuð spes og flott En hárgreiðslukonan mín hún Gréta Skúla vildi ekki leyfa mér að ganga um bæinn með grænt hár því þá héldu allir að hún bæri ábyrgð á því. Hún hefur samt sýnt mér ótrúlega þolinmæði því ég get ekki ákveðið hvort ég vil vera dökkhærð eða ljóshærð og skipti því um lit a.m.k. einu sinni á ári. Mér er samt að verða ljóst að grái liturinn er fallegastur og fer mér best. Ég er nefnilega svo heppin að vera orðin gráhærð, eða næstum því alveg gráhærð.
En þetta gæti verið verra, þó ég viti ekki alltaf hvað ég vil, veit ég alltaf hvað ég vil ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)