Valfrelsiskvíði

Suma daga veit ég ekki hvað ég vil.  Það er alveg sama hvort um er að ræða stóru eða litlu málin, allt er snúið og flókið. Þetta er víst stundum kallað valfrelsiskvíði.

Líklega þekkið þið þessa tilfinningu, eða hver hefur ekki staðið í búðinni, ráðþrota og hefur ekki hugmynd um hvað á að kaupa í matinn.  Ég var að vísu búin að þróa ágætt kerfi, ég kíkti bara í körfuna hjá næsta manni og stal hans hugmynd.  Oftast gengur það upp en suma daga virtist einhver tregða liggja í loftinu og allir hinir í búðinni þvælast um með spurnarsvip. Kíkja í körfurnar hver hjá öðrum í von um hjálp.  Aðrir dagar eru góðir og kona getur auðveldlega valið úr nokkrum hugmyndum.  Nú svo kemur fyrir að mér dettur eitthvað í hug alveg sjálfri, en það er sjaldan.  Kannski munu verslanirnar hérna koma til móts við okkur og hengja upp skilti með tillögum. 

 grænmetisætur

Þessar grænmetisætur þurfa ekki að kaupa í matinn. Þær gætu þó þurft að hafa áhyggjur af því að verða ekki í matinn. 

 

Annað sem getur vafist fyrir okkur fólkinu með valfrelsiskvíðann er að finna föt til að fara í.  Ég stend mínútum saman fyrir framan stóra hrúgu af svörtum fötum og get ekki ákveðið í hvaða svörtu föt ég á að fara í þann daginn.   Annars er ég frekar heppin því ég þarf oftast ekki að spá í lit, heldur einungis snið og einangrunargildi. Mínir dagar eru langflestir svartir, þó ég spái stundum í mórautt.

mógolsótt og svargolsótt

Hvort er fallegra að vera í svörtu eða mórauðu?

Sumir eiga föt í öllum litum, mikið vorkenni ég þeim.  Önnur hlið á fatavandamálinu er að kaupa föt.  Það er alveg ferlega erfitt, úrvalið er allt of mikið og fötin sem mér finnast flott virðast ekki passa á mig.  Það er engu líkara en að ég hafi valið mér fatasmekk fyrir tuttugu kílóum síðan og álíka mörgum árum og sé í dag að reyna að fá þetta til að ganga upp.  Auðvitað gengur það ekkert upp og ég ætti engin föt ef  Sigga og Hrefna  í fatabúðinni Jóni og Gunnu hefðu ekki útsjónasemi í að koma mér í eitthvað sem passar.

 

Að lokum get ég ekki látið hjá líða að tala um hárgreiðslu og hárlit.  í gegn um árin hef ég prufað alla liti nema blátt og grænt.  Að vísu fékk ég græna slikju í hárið einu sinni  eftir miklar litatilraunir sem mér þótti bara nokkuð spes og flott En hárgreiðslukonan mín hún Gréta Skúla vildi ekki leyfa mér að ganga um bæinn með grænt hár því þá héldu allir að hún bæri ábyrgð á því.  Hún hefur samt sýnt mér ótrúlega þolinmæði því ég get ekki ákveðið hvort ég vil vera dökkhærð eða ljóshærð og skipti því um lit a.m.k. einu sinni á ári.  Mér er samt að verða ljóst að grái liturinn er fallegastur og fer mér best.  Ég er nefnilega svo heppin að vera orðin gráhærð, eða næstum því alveg gráhærð.

 

En þetta gæti verið verra, þó ég viti ekki alltaf hvað ég vil, veit ég alltaf hvað ég vil ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gló Magnaða

Eini valfrelsiðkvíðinn sem ég fæ stundum er hvort ég eigi að fara á Langa Manga eða vera heima. Yfirleitt fljótafgreitt.

Gló Magnaða, 25.9.2007 kl. 16:07

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hehehehehe

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.9.2007 kl. 17:38

3 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Ég fæ nú aldrei valfrelsiskvíða fljót að ákveða hvað ég vil og ekki
og stend við það, en ég sakna Grétu Skúla hrikalega og Jóni og Gunnu,
stelpurnar þar eru bara flottar, líka sakna ég silfurtorgsins
fæ ekki nærföt síðan ég flutti frá Ísafirði, enda verslaði ég þegar ég fór vestur
siðast-liðið vor.
Alltaf í svörtu segir þú það eru nú fleiri.
Hróbjartur minn sem á heima í Garðabæ, sagði eitt sinn við mig,
amma ert þú alltaf í sömu fötunum ég hrökk í kút
hann sá ekki muninn á fötunum þau voru bara svört.
Svart er nú samt best.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 25.9.2007 kl. 20:20

4 Smámynd: Hjördís Þráinsdóttir

Ég styð svarta trendið. Það er alltaf inn, já og svo ég tali nú ekki um orkusparnaðinn! Það er alltaf hægt að þvo troðfullar vélar af svörtum fötum í stað þess að þvo eina og eina gula eða bleika tusku í vélinni.

Hvað varðar matarinnkaup á andlausum dögum þá gætirðu prófað að velja eitthvað eitt sem þú myndir þá alltaf kaupa og elda þegar þér dettur ekkert annað í hug. Það gæti þó farið illa ef þú velur rónasteik, þá er ég að hugsa um fötin sem þér finnast flott en passar ekki í - þeim gæti farið fjölgandi. Annars máttu alveg senda mér sms og biðja um tillögu að kvöldmat og ég skal senda þér hana um hæl!

Hárið á þér er alltaf flott, enda með bestu hárgreiðslukonuna í bænum!

*Klórar sér í sviðnum skallanum eftir marglitan síðasta tíma hjá Grétu*

Hjördís Þráinsdóttir, 25.9.2007 kl. 21:47

5 Smámynd: Ylfa Mist Helgadóttir

Svört föt, grátt hár.....

do I need say more?

Ylfa Mist Helgadóttir, 25.9.2007 kl. 22:15

6 identicon

sammála gló.. Fljótafgreitt oftast. Og til að bæta við valfrelsiskvíðann minn í fatavali, þá finnst mér föt sem aðrar konur eru í alltaf flottust . Og langar í þau og engin önnur.

amma (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 22:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband