24.4.2008 | 00:35
Systurnar fóru úr sveitinni en sveitin fór ekki úr systrunum
Eitt af því sem erfitt er að vaxa upp úr er búmennska. Þegar við systurnar frá Alviðru vorum litlar áttum við alltaf kindur og eigum enn þó við séum allar fluttar á mölina og farnar að sinna öðrum málum. Á dögunum skruppum við saman í sveitina að líta eftir búpeningnum. Sirrý, elsta systir mín á eina mórauða sem hún þóttist hafa valið eftir búfræðilegum aðferðum, mig grunar þó að hún hafi bara valið þessa stærstu. Giddý fór þó sannarlega akademískt í málið, valdi ættbókarfærðan þrílembing frá Mýrum. Ég var eitthvað sein fyrir og hafði alveg gleymt að eigna mér kind, það mál leystist af sjálfu sér í þessari heimsókn.
Ég valdi þessa stóru, feitu, femínisku og hárprúðu. Hún er ekki enn borin og grunar fólk að hún sé jafnvel geld. Það þykir bændum sauðsvört óhlýðni og ósvífni af verstu sort, en mér finnst það femínískt. Það verður að hafa það þó ég þurfi að hafa fisk í matinn í haust. Núna á ég einu femínísku kindina á Íslandi sem þar að auki er stærri en hrúturinn, sem þykir nokkuð gott. Ég læt fylgja með nokkrar myndir og bendi hvet ykkur sem ekki eruð svo lánsöm að eiga athvarf í sveitinni að kíkja inn á kindur.is þar er hægt að fá sér kind.
þarna er hún Sirrý stolt og glöð með Móru sína og lömbin.
Giddý er ekki síður ánægð með skræpóttu lömbin hennar Golsu sinnar.
Þessi hægra megin er Móra stóra femínisti og sauðkind, glöggt má sjá að hún kemur vel undan vetri.
Athugasemdir
Alveg kostulegt valið hjá þér. En hún er sauðsleg og flott ærin þín. Ég myndi bara taka hana með mér inná Ísafjörð og hafa sem gæludýr. Nóg pláss á heimilinu. Og svo borðarðu bara gras í haust.
sbr. "Bíttu gras ....stundin nálgast og löng er þín bið... þú værð föt þú færð kjöt þegar uppljúkast himinsins hlið ."
hlaupari (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 09:08
Hún er ekkert mjög kindarleg kindin þín. Há grönn og falleg eins og bæjarstjóri.
Gló Magnaða, 24.4.2008 kl. 10:55
Iss... það er óeðli í skepnunni.....
Éttana!
Ylfa Mist Helgadóttir, 26.4.2008 kl. 01:24
já auðvitað sauðburðurinn að byrja, ég á nú þegar 4 kindur og einn hrút þannig að ég þarf ekki að bíta gras í haust þó svo að ein kindanna sé geld í þetta sinn enda var hún þrílembd í fyrra.....vonum bara að systur þínar hugsi vel til þín í haust svo að þú þurfir ekki að fara að leggjast í hagann.
Sigrún Sigurðardóttir, 26.4.2008 kl. 19:54
Matthildur stundum geturðu næstum drepið mann út hlátri, það sem þér dettur í hug Maður verður sem sagt að hætta að tala um feministabeljur, og ræða þess í stað um feministaær.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.4.2008 kl. 11:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.