Færsluflokkur: Bloggar

Ég spyr fyrir hönd þjóðarinnar

Væri það til of mikils mælst að eigendur bankanna útskýrðu fyrir okkur af hverju það er útilokað að afskrifa skuldir íslenskra heimila á sama tíma og skuldir stóreignamanna eru afskrifaðar?  

Ég spyr fyrir hönd íslensku þjóðarinnar sem ætlar að borga óreiðuskuldirnar sem fjárglæframenn söfnuðu í skjóli yfirvalda. 

Ég spyr því það virðist ekkert lát vera á fréttum af undarlegum gjörningum skilanefnda bankanna. 

Ég spyr því minni réttlætiskennd er ofboðið. 

Ég spyr því ég vil vita hvort stjórnvöld ætla að  uppræta spillinguna og stoppa sjálftökuliðið. 

Ég spyr ekki síst því ég skammast mín fyrir þessa menn


mbl.is Gamli Landsbankinn afskrifar skuldir Magnúsar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlar kaupa 12 ára stúklur í Zimbabwe til að nauðga þeim

Af hverju er umfjöllun um vændi barna alltaf þannig að áherslan er lögð á börnin?  Fréttamaðurinn sem skrifaði þessa frétt upphaflega ákvað að setja áhersluna á að barnið seldi sig ekki á að karlar keyptu börnin.  Þeir sem afrituðu fréttina til birtingar í sínum miðlum ákváðu að láta orðalagið standa. 

Sumum kann að finnast að það skipti ekki miklu máli svo framarlega sem allt komi fram í fréttinni. Ég er á þeirri skoðun að það sé einmitt mikilvægt að setja áhersluna á þann sem misnotar barnið, kaupandann, nauðgarann eða hvað þið viljið kalla hann.  Stígamót og fleiri hafa margoft bent á að þessi lenska að setja alla áherslu á fórnarlambið sé röng.  Það þurfi að höfða til þeirra sem kaupa börnin.  

Fyrir mína parta mun ég aldrei samþykkja að það sé eðlilegt  viðskiptasamband að fullorðinn maður kaupi kynlíf af kornungu barni.  Ég myndi aldrei kalla það vændi ég myndi kalla það misnotkun eða nauðgun.  Ég get ekki að því gert að velta fyrir mér af hverju gerandinn, í þessu tilfelli einhverjir níðingar sem misnota fátækt 12 ára barna, er ekki úthrópaður af fjölmiðlum. Er verið að normalísera barnaklám?


mbl.is Stúlkur í Zimbabwe selja sig fyrir mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðingar heimta aukavinnu í Reykjavík

Vestfirðingar eru ekki af baki dottnir núna í kreppunni frekar en fyrri daginn.  Nú ferðast þeir um í hópum og heimta aukavinnu, og það í Reykjavík.  Forsaga málsins er sú að KómedíuhöfðinginnElfar Logi fékk þá hugmynd að setja upp leikrit sem byggði á lögum Jónasar og Jóns Múla Árnasona.  Eftir nokkurt japl, jamm og fuður var verkið, Við heimtum aukavinnu, frumsýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði undir merkjum Litla Leikklúbbsins.  Um Hvítasunnuhelgina verður þetta verk flutt í Reykjavík.

Það er skemmst frá því að segja að þessir tónleika með leikrænu ívafi, sem ég kýs að kalla svo, slógu rækilega í gegn og var uppselt á nánast allar 10 sýningarnar.  Ég sá nú ekki nema þrjár af þeim, en get staðfest að þetta er hin besta skemmtun.  Það skapaðist skemmtileg stemning í salnum þar sem áhorfendur klöppuðu með eða tóku undir sönginn, enda textanum varpað á vegg.   Hvort sem um ræðir stórskemmtilegar útsetningar Guðmundar Hjaltasonar hjómsveitarstjóra, sem þarf ekkert að gjalda fyrir að vera maðurinn minn í þessari umfjöllun, stórkostlegur söngur og sviðsframkoma Hjördísar Þráinsdóttur söngkonu hljómsveitarinnar, hinir þjóðlegu búningar, skemmtileg sviðmynd eða fumlaus og vandaður leikur og söngur hjá félögum Litla Leikklúbbsins þá gekk allt upp.  Sýningin er létt og skemmtileg og lögin ómuðu í minningunni í marga daga á eftir.

Ég læt fylgja nokkrar myndir og skora á ykkur að láta þessa sýningu ekki fram hjá ykkur fara, þið munið ekki sjá eftir þessari kvöldstund. 


Gullhömrum í Grafarholti
Föstudaginn 29. maí kl.21.00
Laugardaginn 30. maí kl.20.00 og 22.00
Miðaverð aðeins 2.500. krónur

Miðasölusími: 6188269

Mig langar að benda ykkur á að fylgjast sérstaklega með þóttafullu söngkonunni sem finnst
hún vera agalega fræg. Og það tekur sig enn upp gamalt bros þegar lög eins og dirrindí, bara dirrindífröken Reykjavík eða þá stundi Mundi skjóta allt í einu upp kollinum og byrja að syngja sig sjálf inn í höfðinu á mér. 

Góða skemmtun!

Við heimtum aukavinnuVið heimtum aukavinnuVið heimtum aukavinnuVið heimtum aukavinnuVið heimtum aukavinnu


Byggjum réttlátt þjóðfélag

 Eftirfandandi ræðu hélt ég í Endiborgarhúsinu 1 maí 2009

Í dag er 1. Maí, frídagur verkamanna og mig langar að byrja á því að þakka fyrir að fá að standa hér, þó ég sé strangt til tekið í hinu liðinu, sem atvinnurekandi.   Þetta er mér mikill heiður og ég veit að það er ekki sjálfgefið.  Ég trúi á réttlæti og jafnrétti og tel að þrátt fyrir allt eigi sjónarmið atvinnurekenda og verkamanna meira sameiginlegt en ekki. Við stefnum jú flest að sameiginlegu markmiði um að hér blómstri öflugt mannlíf og atvinnulíf. Það er beggja hagur.  Það verður þó að vera jafnvægi á vinnumarkaði og samkomulag og  samningar þannig að báðir hagnist.   Sá atvinnurekandi sem lætur sér annt um starfsmenn sína og sýnir þeim virðingu, uppsker betri  vinnubrögð því ánægð manneskja áorkar meiru en óánægð.  Og starfsmaður sem veit þetta, er líka betur tilbúinn að standa með fyrirtækinu þegar illa árar.  Þvert ofan í það sem margir hafa haldið sýna rannsóknir að þetta eykur  hagnað fyrirtækja.  Það er misjafn sauður í mörgu fé og sumir skammtímagróðafjárfestar, eins og ég vil kalla þá, hafa alveg horft fram hjá þessu atriði.  Fyrirtæki sem hafa gengið kaupum og sölum og endað í eigu fólks sem hefur engan áhuga á rekstri þeirra, eru bútuð niður í einingar og seld tvist og bast.  Öllu venjulegu fólki er ljóst að slíkum fyrirtækjum blæðir út.  Fólk missir vinnuna og tækifæri glatast. Þegar upp er staðið hafa allir tapað. Nema kannski þessi eini sem seldi á réttum tíma.  Þetta er sá veruleiki sem við höfum búið við, þetta er eitt af því sem við viljum breyta.

Ýmislegt hefur gengið á í íslensku þjóðfélagi í vetur, en í dag ætla ég ekki ræða um efnahagshrunið eða hvernig siðleysið og græðgin kom okkur í koll, það hafa nógu margir gert því skil og það munu nógu margir halda áfram að gera því skil.  Ég get ekki annað en verið bjartsýn á að við lærum af þessu hruni og að þegar upp er staðið fáum við betra þjóðfélag og samfélag, þó það sé dýru verið keypt.  Ég trúi þessu, því ég er bjartsýniskona, og það er ekki góður siður að gefast upp þó móti blási eða eyða orku í að hugsa um allt það sem getur farið úrskeiðis í framtíðinni.  Tíma okkar er mun betur varið í að hugsa um hvar tækifærin liggja og hvernig við getum nýtt okkur þau.  Í dag ætla ég frekar að ræða um framtíðina. Ræða um að það sem við eigum og enginn getur stolið frá okkur.  Við eigum allar okkar hugmyndir og kraftinn sem í okkur býr, vonina og óskina um að við sigrumst á vandanum og komum sterkari frá honum.  Það getur engin tekið frá okkur, við getum að vísu ákveðið að gefast upp, en ég á ekki von á að það sé meirihluti fyrir því í þessum sal.
 Á tímamótum sem þessum, þar sem við þurfum að endurskoða allt, er mikilvægt að leyfa sér að vona og gefa ímyndunaraflinu og sköpunarkraftinum lausan tauminn.  Við skulum ekki gleyma því að á upphafið á öllum stórvirkjum er hugmynd.  Því skulum við aldrei kasta frá okkur hugmyndum við skulum skoða þær með opnum huga, leggja þær fyrir vini, ættingja eða fagmenn því það er aldrei að vita nema hugmyndin sé góð.  Að hún sé upphafið af einhverju nýju og stórkostlegu.  Það er ósiður að drepa hugmyndir niður með því að segja sem svo þetta getur aldrei gengið, án þess að ganga úr skugga um það. Ég þekki af eigin reynslu að það er oft lítið mál að fá hugmyndir, gaman að útfæra þær en það krefst þors að framkvæma.  Stundum gengur vel, stundum ekki svo vel, það er allt í lagi því ef enginn þorði að gera neitt væri engin framþróun.    Á fínu máli er þetta stundum kallað nýsköpun.  Ég hvet ykkur til að skoða í alvöru hvort draumar ykkar geti ekki ræst.  Hvort sem þið eruð að hugsa um nám, nýtt starf eða að stofna fyrirtæki.  Gefið hugmyndinni séns og látið vaða.

Þegar ég var að undirbúa þessa tölu fór ég að spá í fyrir hvað þessi dagur stendur.  Eða hvað er einkennandi fyrir þennan dag.  Það sem mér datt fyrst í hug var auðvitað Nallinn og eftir nokkurt gúggl fann ég textann.  Það er svolítið skemmtilegt að skoða þennan texta sem er gamall og barn síns tíma og þó svo viðeigandi enn í dag.


Fúnar stoðir burtu við brjótum!
Bræður! Fylkjum liði í dag-
Vér bárum fjötra, en brátt nú hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.


„Bræður fylkjum liði“ þarna var baráttan greinilega bara eitthvað fyrir strákana..... en að öðru leyti sýnir þetta textabrot úr Nallanum að boðskapurinn á við í dag enda er barátta fyrir réttlæti og jöfnuði ekki eitthvað sem verður afgreitt í eitt skipti fyrir öll, og þarf síðan ekki að hugsa um meir.  Nei baráttan fyrir réttlæti mun halda áfram svo lengi sem við mannfólkið lifum hér á jörð.


Ég gríp aftur niður í textann
Alls hins stolna aftur vér krefjumst,
ánauð þolir hugur vor trautt,
og sjálfir brátt vér handa hefjumst
og hömrum meðan járn er rautt


Ef ég vissi ekki betur héldi ég að höfundurinn væri hér að semja um búsáhaldabyltinguna.


Enn heldur Nallinn áfram
Vér erum lagabrögðum beittir
og byrðar vorar þyngdar meir,
en auðmenn ganga gulli skreyttir
og góssi saman raka þeir.


Ef marka má fréttir í vetur, þá mætti halda að engin þjóð nokkurn tíman séð það svartara en við Íslendingar núna.  En þetta var samið löngu fyrir tíma útrásarvíkinga, kvótaframsals eða einkavinavæðingar.  Þetta sýnir okkur að það verður alltaf þörf fyrir verkalýðshreyfingu baráttan hættir aldrei. 

1. Maí er í mínum huga líka dagur til að minnast baráttufólks og hversdagshetja.  Merkilegt annars að það eru einkum konur sem eru kallaða hversdagshetjur, karlarnir eru hetjur.    En mig langar að tala um nokkrar baráttukonur.     Ég man þegar ég var lítil stelpa og dáðist að konunum sem létu ekki segja sér að standa á hliðarlínunni.  Létu ekki þagga niður í sér þó þær væru þaggaðar  leynt og ljóst.  Þær vissu að þeirra raddir yrðu að heyrast og þeim var alveg sama þó einhverjum þætti eitthvað um þær.  Fyrst nefni ég  vitanlega hana móðir mína Jónu Björk Kristjánsdóttur sem kenndi mér gagnrýna hugsun og ekki síður mikilvægara, hún kenndi mér að rífa kjaft. Ég sat löngum stundum hjá henni í vinnunni í eldhúsinu á Núpi og hlustaði á hana ræða um pólitík, réttlæti og kvenfrelsi við kennarana, flesta karlmenn sem þóttust nú margir vita betur en þessi, að því sem þeim fanst, ómenntaða sveitakona.  Þar hitnaði stundum í kolunum.  Næst kemur upp í huga mér Vigdís Finnbogadóttir forseti, Ég man enn þegar hún var kosin, ég hélt sko með henni.  Skildi ekki hvernig nokkurri þjóð gæti dottið í hug að hafa gamlan karl sem forseta.  Ég man líka vel hvað þeir voru dónalegir við  hana karlarnir, bæði sjónvarpsmennirnir og hinir frambjóðendurnir, en það herti í mér.  Síðast, en alls ekki síst, vil ég nefna Aðalheiði Bjarnfreðsdóttir,  það þótti mér flott kona.  Hún var sko engin puntudúkka eða meikdolla þarna var alvöru kona á ferð, alvöru málsvari verkakvenna, hún kom til dyranna eins og hún var klædd. Ég skil ekki af hverju það er ekki löngu búið að gera styttu af henni. (og kem þeirri hugmynd hér með á framfæri).  Það er líka athyglisvert að hugsa til þess að Guðmundur Guðmundsson fékk viðurnefnið jaki en Aðalheiður fékk mér vitanlega ekkert viðurnefni enda „bara“ kona.
Í allri umræðunni hefur stundum verið talað um samfélagslega ábyrgð.    Hvað er það?      Að mínu viti er samfélagsleg ábyrgð ekki bara að hjálpa þeim sem minna mega sín með t.d. atvinnuleysisbótum eða öðrum bótum og styrkjum.  Samfélagsleg ábyrgð er að hugsa alltaf um stóru myndina því allt sem við gerum hefur áhrif.  Það hefur áhrif á samfélagið hér fyrir vestan ef hver og einn tekur þá ákvörðun að kaupa það sem hann þarf hér heima.     Það hefur samfélagslega áhrif ef við veljum vestfirskt.  Það hefur samfélagsleg áhrif að velja Íslenskt.  Það er trú mín að við eigum byrja heima, við getum breytt því sem við gerum sjálf og því sem við kennum börnunum okkar.Það fer að skipta máli þegar margir hugsa svona. Það er einfalt að reikna það út hvað samfélagið hér tapar á því þegar 100 manns ákveða að kaupa t.d. fermingargjafirnar á Laugarveginum, fara í klippingu í Smáralindinni og kaupa fötin á fjölskylduna Kringlunni.  Við viljum öll hafa verslanir og þjónustu hér heima, við vinnum í þessum fyrirtækjum.  Gefum þeim séns.      En samfélagsleg ábyrgð er ekki bara að gefa, það er ekki síður mikilvægt að graðka ekki í sig, svíkja og stela úr sameiginlegum sjóðum okkar allra. og að safna auði sem maður hefur svo ekkert að gera með.  Eitt sem ég átti t.d. alltaf erfitt með að skilja hjá útrásarvíkingunum okkar, var þessi endalausa milljarðasöfnun.  Hvað máli skiptir það mann sem á 100 milljarða hvort hann eignast 20 í viðbót?  Ég hef ekki enn fengið skynsamlegt svar við þeirri spurningu?

Mikið hefur verið rætt um Evrópusambandið og hvort við eigum að sækja um aðild eða ekki.  Sjálf veit ég ekki hvað ég vil í þeim málum.  Enda höfum við ekki neinar upplýsingar um hvað það þýðir fyrir okkur?  Hvað gerist í vaxtamálum? hvað verður um náttúruauðlindirnar?  Hvernig koma tollarnir út?  Það er einlæg ósk mín að næsta stjórn muni færa okkur svörin við þessum spurningum og mörgum fleiri, svo við getum gert upp hug okkar.  Það er ljóst að ný ríkisstjórn þarf að taka til á mörgum stöðum og í fyrsta skipti eru einhverjar líkur á því að þjóðin eignist aftur óveidda fiskinn í sjónum.  En framsal og veðsetning á kvóta er líklega ein vitlausasta hugmynd allra tíma og framkvæmd hennar glæpur gegn fiskverkafólki, sjómönnum og í raun þjóðinni allri.  Þar treystu menn á markaðinn í blindni því markaðurinn átti að koma með hagkvæmustu lausnina,  það gleymdist bara eitt.  Peningar eru ekki og verða aldrei skynsamlegasta stjórnunartækið enda metum við ekki allt til fjár. 

Ég get ekki látið hjá líða að minnast nokkrum orðum á það hvað mér finnst ég vera heppin að búa hér fyrir vestan, mannlífið er skemmtilegt og krafturinn hér sem einkennir lítil samfélög eins og okkar gerir okkur kleyft að framkvæma ótrúlegustu hluti,  Aldrei fór ég suður, Óbeisluð fegurð, Fossavatnsgangan eru dæmi um þennan kraft.    Náttúran rétt innan seilingar, stórkostleg og falleg.  Listalífið blómstrar, leikhús tónleikar, böll, myndlistasýningar svo eitthvað sé nefnt.  Þó við borðum ekki útsýnið, eins og stóriðjusinnar hafa margoft minnt okkur á, þá skiptir þetta máli og er hluti af lífsgæðum okkar.  Og hér viljum við búa.  Við eigum ekki að þurfa að biðjast afsökunar á því og við eigum ekki að slá af kröfum okkar um eðlilega uppbyggingu á grunngerð samfélagsins.  Með grunngerð á ég m. a. við mannsæmandi vegi bæði innan Vestfjarða og til frá Vestfjörðum.  Öruggt og öflug netsamband við umheiminn svo fyrirtæki hér á Vestfjörðum geti af fullri alvöru tekið þátt í framförum og þróun tölvuheiminum. Og ekki síst stöðugleika í peningamálum, það einfaldlega mjög erfitt að reka heimili og fyrirtæki þegar verðbólga og vextir sveiflast eins og á Íslandi.  Við erum mörgum árum á eftir bæði í vegagerð og nettengingu og við eigum ekki að gefa eftir í þeim kröfum.  Ef rétt er gefið og jarðvegurinn góður getum við bjargað okkur. Það þarf að leiðrétta margra ára vanrækslu stjórnvalda á þessu svæði við skulum ekki gleyma því að það eru bara nokkrir áratugir síðan þetta svæði var eitt af aðal tekjulindum þjóðarinnar.  Fóru þeir peningar bara í að byggja upp skrifstofu og verslunarhúsnæði í Reykjavík?     Ríkið sogar æ fleiri störf til Reykjavíkur í nafni hagræðingar og nú er svo komið að ríkisstofnanir mega ekki kaupa vöru af litlum fyrirtækjum úti á landi þessar stofnanir skulu kaupa þjónustu af fyrirtækjum í Reykjavík.  Við þekkjum öll svona dæmi.
 

Að lokum langar mig að benda á að það er mikilvægt að við vinnum saman að því að byggja upp réttlátara og betra þjóðfélag með jafnrétti að leiðarljósi.  Við megum  aldrei gefast upp og þó við fáum ekki það sem við teljum sjálfsagðan rétt okkar, eigum við ekki að setjast niður og bíða eftir björgun.  Núna verðum við öll að vera vakandi fyrir tækifærum og þora að láta vaða.  Ef enginn bjargar okkur þá björgum við okkur sjálf.

 


Ætti Lýðheilsustöð kannski að hvetja konur til að vera fullar heima?

Það er með ólíkindum hvað auglýsing Lýðheilsustöðvar, hvar þeir hvetja stúlkur til að drekka ekki, er ósmekkleg.  Samkvæmt henni eru konur hvattar til þess að drekka ekki því þá sé minni hætta á því að þær verði fyrir ofbeldi eða nauðgun. Ég hélt að þau sjónarmið að fullar konur gætu sjálfum sér um kennt ef þeim er nauðgað væru það gamaldags og úrelt að þau sæjust ekki lengur.  drekkur

Skoðum þessi undarlegu skilaboð aðeins nánar.  Er ekki verið með óbeinum hætti að gefa í skyn að þær konur sem hefur verið nauðgað þegar þær voru undir áhrifum áfengis, beri sjálfar ábyrgð á nauðguninni?  Þær hefðu líklega sloppið ef þær hefðu ekki drukkið.  Eru þetta ekki óbein skilaboð til þeirra sem nauðga að það sé á einhvern hátt ásættanlegra að nauðga drukkinni konu en þeirri sem er ódrukkin?   Það er tími til komin að fólk fari að setja ábyrgðina á nauðgarann sjálfan.  Það er nauðgarinn sem ákveður að nauðga og velur sér fórnarlamb.  Sá eða sú sem er nauðgað getur aldrei borið ábyrgð á því. 

Ég er orðin hundleið á þeim skilaboðum að við konur eigum að temja okkur ákveðna hegðun til að sleppa við ofbeldi og nauðganir.  Ættum við ekki alveg eins að koma í veg fyrir nauðganir með því að sjá til þess konur séu ekki undir neinum kringumstæðum nálægt karlmönnum.  Eigum við kannski að hvetja konur til að drekka bara heima?  Það er að segja ef þær búa ekki með karlmönnum, sem samkvæmt þessu sjónarmiði geta bara ekki ráðið við sig.  Ég vil hvetja starfsmenn Lýðheilsustofnunar að hætta að birta þessa auglýsingu og biðja bæði karla og konur afsökunar á óvönduðum vinnubrögðum.


Engin lög ekkert atkvæði

 
Bann við kaup á vændi og bann við klámstöðum eru litlar kröfur til að gera til stjórnarflokkanna en breyta miklu fyrir samfélagið.  Ég krefst þess að þessum lögum verði hleypt í gegnum þingið fyrir lok þess. Ef ekki mun ég ekki greiða stjórnarflokkunum atkvæði mitt.

Hverjir vissu af þessu minnisblaði Seðlabanka og hvað gerðu þau?

Þetta þykja mér merkilegar fréttir. Það sem vekur áhuga minn, er það sem ekki kemur fram í fréttinni.  Hvar var þetta minnisblað lagt fram?  Hverjir vissu af því.  Menn og konur hafa keppst við að koma því á framfæri að þau hafi ýmist ekki vitað af því hve mikil hætta var á ferðum eða að þau hafi varað við hættunni.  Nú svo má líka velta vöngum yfir því af hverju þessar upplýsingar voru ekki löngu komnar fram.

Ef ríkisstjórnin vissi af þessu minnisblaði Seðlabanka og aðhafðist ekkert þá er það alvarlegt mál, forkastanleg vinnubrögð og hirðuleysi af verstu sort.  Það er heldur ekki óeðlilegt að við krefjumst þess að vita hverjir fengu að sjá þetta minnisblað og hvort það fólk átti hlutabréf sem það seldi fyrir hrun.

Það er von mín að við getum lært af þessu hruni og til þess að svo verði þarf allt að koma upp á yfirborðið.   Nú reynir á fjölmiðla og kjósendur að temja sér gagnrýna hugsun og spyrja þangað til við fáum svör.


mbl.is Stefndu fjármálalífinu í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skipun í bankaráð Seðlabanka brot á janfréttislögum?

Skipun í nýtt bankaráð Seðlabanka hlýtur að vera brot á jafnréttislögum.  Hve lengi eigum við konur að trúa því að við séum ekki eins hæfar og karlar?  Það þó er sjálfsagt að halda því til haga að hlutfallið snýst við þegar varamennirnir eru skoðaðir. við megum sem sagt vera með ef þeir veikjast eða deyja Trúir því annars einhver að á öllu Íslandi séu ekki til nema tvær konur hæfar til að sitja í þessu ráði?  

Satt að segja hafði ég vonast til þess að við hefðum lært eitthvað af því að láta tóma karlmenn stjórna landinu.  Við hefðum lært af hruninu í haust sem sýndi svart á hvítu fram á að einsleit stjórn fjármála og áhættuhegðun er bæði hættuleg og dýr.  Það verður ekki fram hjá því horft að karlmenn hafa stjórnað fjármálum okkar Íslendinga og í gegn um tíðina.  Okkur konunum hefur verið haldið frá fjármálastjórn og m.a. heyrðist sagt að við höfum ekki þá áræðni sem þyrfti.  Var það ekki einmitt þessi áræðni sem kom okkur á kaldan klaka?  Var ekki ein aðal ástæðan fyrir því hversu bankarnir voru illa reknir sú að þar safnaðist sama einsleitur hópur ungra karla sem allir höfðu lært á sama stað og allir hugsuðu eins.  Önnur nálgun þótti ekki vera rétt og því fór sem fór.

Mig langar einnig til að rukka Samfylkinguna og Vinstri Græn um framkvæmd jafnréttisstefnu þessara flokka. Það er ekki endalaust hægt að benda á Sjálfstæðisflokkinn  og segja að hann sé verri.  það bætir ekki böl að benda á annað verra.

Hr. Matthildur

15. gr. Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera.

Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga
skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en
40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig
um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða
sveitarfélag er aðaleigandi að.

Þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og
sveitarfélaga skal tilnefna bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er
heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða
til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal
tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.

Skipunaraðila er heimilt að víkja frá ákvæði 1. mgr. ef
undanþáguheimild 2. mgr. á við.


mbl.is Nýtt bankaráð Seðlabankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru launahækkanir bannaðar?

Ég hef verið hugsi yfir þeirri ákvörðun stjórnar HP Granda að borga eigendum út arð, vegna þess hve fyrirtækið stendur vel, á sama tíma og þetta fyrirtæki treystir sér ekki að fara í umsamdar launahækkanir til starfsfólksins.   Stjórnin skýlir sér þarna á bak við það samkomulag sem atvinnurekendur og launafólk gerði um frestun launahækanna vegna bágrar stöðu fyrirtækja.

Svona framkoma er ekki bara siðferðislega röng, þetta er misnotkun á samningum um lágmarkslaun og grefur undan trausti og trúverðugleika milli starfsmanna og fyrirtækja.  Fyrirtæki er ekki neitt án starfsmanna og starfsmenn hafa ekki vinnu án fyrirtækja. Það ætti því að vera öllum augljóst að samstarf og samvinna milli starfsmanna yfirstjórnar fyrirtækis skiptir gríðarlegu máli.  Ánægður starfsmaður vinnur einfaldlega miklu betur og skilar því meiri og betri vinnu en sá óánægði.  Ánægður starfsmaður stendur stoltur með því fyrirtæki sem hann vinnur hjá á meðan sá óánægði lætur sér fátt um finnast eða jafnvel talar það niður.  Fyrirtæki sem notar samkomulag um frestun launahækkunar vegna bágrar stöðu, en skilar milljarðahagnaði, er að reka fleyg á milli atvinnurekanda og launamanna.  Ég þekki fólk sem kallar svona framkomu ósmekklega græðgi?

Það er eins og sumir telji sig alltaf stikkfrí og að þeir beri enga samfélagslega ábyrgð.  Þegar vel gengur á svona fólk allan heiðurinn og eins mikið af afrakstrinum og það mögulega getur graðkað í sig, en þegar harðar á dalnum finnst því sjálfsagt að samfélagið hjálpi til.   Ég er orðin langþreytt á svona fólk.


 


Ertu heiðarlegur frambjóðandi?

Mig langar að varpa þeirri einföldu spurningu til allra frambjóðenda í öllum flokkum á Íslandi, hvort þau séu heiðarleg.   Ég spyr einfaldlega vegna þess að ég á erfitt með að treysta ykkur eftir allt sem á undan er gengið.  Nær daglega koma fréttir af nýjum spillingarmálum upp á yfirborðið  og spillingarnetið virðist bæði hafa verið flókið og skilvirkt. Ótrúlega margir spiluðu með annað hvort með því að loka augunum fyrir því sem var að gerast eða með því að taka þátt. 

Kannski ættum við kjósendur að útbúa samning sem við bjóðum væntanlegum þingmönnum að skrifa undir.  Í samningi þessum kæmi fram að viðkomandi lofaði því að stela hvorki fyrir sig né aðra, vera heiðarlegur í alla staði og að láta vita af allri spillingu sem hann eða hún verður vör við.  Önnur útfærsla á þessu væri að frambjóðendur hefðu sjálfir frumkvæði og gæfu út stuttar og hnitmiðaðar yfirlýsingar þar sem þeir lofuðu að vinna vel og heiðarlega. 

Núna er mikilvægt að við öll getum snúið okkur að því að byggja upp og ég er ekki í vafa um að við getum það. Ég á í miklum vandræðum með að ákveða hvaða flokk ég vil kjósa til Alþingis því ég sé ekki hvað hefur breyst eða hvort eitthvað hefur breyst hjá flokkunum.  Það virðist sem sú skoðun hafi verið of almenn að það sé í lagi að misnota kerfið og því verðum við að breyta.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband