Færsluflokkur: Bloggar
6.6.2008 | 14:55
Frábær Forleikur á Ísafirði
Í gærkvöldi skruppum við mæðgur í leikhús á Ísafirði. Við sáum fjóra einleiki hvern öðrum betri.
Fyrst steig á svið Marsibil Kristjánsdóttir í Örvæntingu, hún var konan sem heldur að allt gangi betur ef þú lítur betur út. Konan sem var á leið í lýtaaðgerð til að lappa upp á hjónabandið. Henni Marsibil tókst að pirra mig með því að vera svona djöfull grunnhyggin eitthvað..........ég gleymdi augnablik að þetta var bara í plati. Hún stóð sig vel og ég held að Kómedíukarlinn hennar ætti að fá hana í fleiri hlutverk í framtíðinni.
Næstur á svið var Sveinbjörn Hjálmarsson sem dauður. Hann var ótrúlega skemmtilegur sem þessi leiðinlegi, montni og yfirborðskenndi gaur. Það er greinilegt að ekki verða allir að góðir við það eitt að deyja. Einleikurinn sem hét því skemmtilega nafni það kostar ekkert að tala í GSM hjá Guði, var háðsádeila af bestu sort og Sveinbjörn var mjög sannfærandi, svo skemmtilega vitlaus að salurinn var í stanslausu hláturskasti.
Þó fólk hafi almennt verið að drepast úr hlátri yfir þeim dauða var það ekkert á við hvað hún Marta Sif Ólafsdóttir lét okkur hlæja í Munum og minjum. Hún átti salinn og fór hreinlega á kostum sem smáskrítin eldri kona. Kona sem hafði safnað öllum hagkaupsbæklingunum og látið binda þá inn í geitaskinn. Hún gaf okkur eftirminnilega innsýn í sinn undarlega þankagang. Ég mun seint gleyma aðförum þessarar konu við hljóðnemann, þrefalt húrra fyrir því.
Að lokum fengum við að kynnast hugarheimi runksalans í Súsan baðar sig. Þar varð Árni Ingason að óþolandi karlrembu sem rak strípistað og átti í balsi með vanþakklátar dansmeyjar sem kunnu ekki að meta góðmennsku hans. Hann skilað þessu hlutverki vel og fékk góð viðbrögð úr salnum enda teygði leikurinn sig langt út í sal.
Þetta var frábær skemmtun og sannar enn einu sinni hversu heppin við erum að eiga fólk eins og hann Elvar Loga í Kómedíuleikhúsinu. Þessa einleiki verður hægt að sjá á Flateyri og í Bolungarvík í kvöld og á morgun auk þess sem þeir verða á einleikjahátíðinni Act alone 2. til 6. júlí í sumar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2008 | 16:51
Femínistar álykta og kaþólkskir mótmæla
Tvennt þótti mér fréttnæmt í dag. Kaþólskir segja upp viðskiptum við Símann og Femínistafélag Íslands sendi frá sér ályktun um skaðabætur íslensks runksala.
Ég fæ ekki með nokkru móti skilið af hverju auglýsingarnar sniðugu frá Símanum fara fyrir sannkristin brjóst kaþólskra. Hingað til hef ég ekki orðið vör við fréttir af því að þeir amist við auglýsingum sumra fyrirtækja, sem byggja á þeirri hugmyndafræði að líkami kvenna sé söluvara og sjálfsagt sé að niðurlægja konur í auglýsingaskyni. Nokkrar slíkar hafa verið í umræðunni og ég hirði ekki um að taka dæmi í bili a.m.k. Ég skil það svo að kaþólsku fólki þyki það vera alvarlegra að gera grín að biblíusögum en að gera lítið úr konum.
Dómurinn sem femínistar gera athugasemd við er náttúrulega ótrúlegur. Fólk hlýtur að spyrja sig hvernig standi á því að mansal er liðið hér á landi. Er það virkilega svo að engin lög ná yfir þessa starfsemi? Er frelsi manna til að runka sér á og utan í aðra verðmætara en frelsi fólks?
Á Íslandi er refsivert að segja að Geiri stundi mansal en það þykir bara sniðugt að hvetja menn til að nauðga femínistum. Svei.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.6.2008 | 15:47
Dráttur óskast, fyrir tíu þúsund.
Sumir nota bloggið sitt til að auglýsa. Það er eðlilegt, ýmist eru bloggarar að selja hunda, bækur, hús eða jafnvel að vekja athygli á skemmtunum. Vitanlega eru auglýsingarnar mis áhugaverðar eins og gengur. Ég rakst á eina skemmtilega auglýsingu hjá henni Ylfu Mist áðan og get ekki stillt mig um að setja hana hérna inn.
Þar er hún að auglýsa eftir drætti á hjólhýsi og heimili fyrir hvolpa, með þessum orðum
"til sölu er tíuþúsundkall fyrir drátt og slatti af hvolpum. Allt í sama númeri"
Það er ekki hægt annað en hafa gaman að þessu og vonandi fær hún drátt og hvolparnir heimili. Auglýsingin hér að neðan varð á vegi mínum í henni stóru Ameríku á dögunum, þar er allt til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2008 | 02:54
Ég og Móra í Aðstæðum
Félagi minn, hann Ágúst Atlason, opnar ljósmyndasýningu klukkan 14:00 laugardaginn 31. maí í Hamraborg á Ísafirði.
Sýninguna nefnir hann aðstæður og vil ég hvetja alla til að kíkja á myndirnar því þær eru mjög góðar og það er óhætt að lofa því að sumar þeirra munu koma á óvart.
Þetta er skemmtileg hugmynd hjá Ágústi, því það alltaf gaman að sjá hvernig fólk leynir á sér, sumir láta glitta innri mann eða konu og aðrir bregða á leik. Þarna er spilað á skoðanir okkar á því hvað þykir við hæfi og hvað ekki. Hvað ein manneskja getur átt sér margar hliðar og ekki síst hvað tilveran er skemmtileg ef við höfum opin augun. Útkoman er listaverk sem kemur okkur til að brosa.
Á einni myndinni er ég í aðstæðum sem eru mér kunnuglegar og kærar. Þetta er ekki sú hlið á mér, sem þið eruð vön að sjá. Með góðfúslegu leyfi Ágústs sýni ég ykkur myndina af okkur Móru femínista.
Ég hef áður skrifað um Móru stóru sem allir héldu að væri geld og ég taldi það merki um sjálfstæða femíníska hugsun. Kindin sú sýndi að ekki er allt sem sýnist og að oft er fjör undir fögrum húðum. Það lýtur út fyrir að ég fái lambakjöt í matinn næsta vetur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.5.2008 | 13:35
Geturðu þagað?
Ég hef oft verið spurð að þessu og svarið er ekki auðvelt.
Þegar ég var yngri og foreldrar mínir hlustuðu á veðrið eða fréttir vildu þeir fá mig til að þegja, rétt á meðan. Það gekk nú svona og svona, í flestum tilfellum var málið leyst með því að ég var send niður eða út að leika mér.
Þegar ég var komin í skóla vildi kennarinn endilega að ég þegði, helst í 45 mínútur, til að hann gæti kennt. Þessi kennari fullyrti að það væri ekki hægt að tala og hlusta á sama tíma. Þetta varð náttúrulega endalaust stríð, þar sem ég þagði illa. Ýmist af ráðnum hug til vera til ófriðs eða þá ég lét undan öllum hugmyndunum sem vildu ómar verða að orðum.
Þegar ég kom út á vinnumarkaðinn var ég líka beðin að þegja um hvað ég hefði í laun. Þessa reglu braut ég margoft en það kom mér ekki í teljandi vandræði.
Þegar ég hitti vini mína og kunningja er ég stundum beðin að þegja yfir leyndarmálum. Það sem vinur segir í trúnaði er heilagt og ekkert fær mig til að kjafta frá. Öðru máli gegnir um leyndarmál stórfjölskyldunnar, óléttur, umsvif og hvaðeina er hvíslað miskunnarlaust á milli fjölskyldumeðlima þangað til allir í fjölskyldunni vita. Svona hóptrúnaður er ekki alltaf vinsæll, en blóð er þykkara en vatn.
Þegar heimurinn er óréttlátur og ósanngjarn og við skiljum ekki illskuna og fávísina sem virðist ráða för, gripum við til þess ráðs að þegja. Í dag þagði ég í nokkrar mínútur og hugleiddi hvað heimurinn gæti verið yndislegur staður, ef allir væru saddir og frjálsir. Ef ofbeldi væri ekki til.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.5.2008 | 16:55
Er sjálfsvirðing gamallar konu Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar of dýr?
Samkvæmt fréttum stendur til að loka öldrunardeildinni á Þingeyri í fjórar vikur í sumar í sparnaðarskyni. Það þýðir að fólkið sem býr þarna verður flutt af heimilum sínum á sjúkrahúsið á Ísafirði og geymt þar á meðan sparnaðarfárið gengur yfir. Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta lágkúra og smekkleysi af verstu sort og gef ekki mikið fyrir peningastjórnun af þessu tagi. Ég þekki málið ekki til hlítar en finnst undarleg forgangsröðun að koma svona fram við gamalt fólk. Gæti Heilbrigðisstofnun Ísafjarðar sparað á öðrum sviðum?
Mig langar að fá það á hreint hvað mikið það mun kosta að halda deildinni opinni? Við ættum kannski að safna pening til að borga þessa aura sem upp á vantar. Hið opinbera hefur hingað til ekki fúlsað við söfnunarfé þegar kaupa á tæki og tól. Þetta er svipað. Ég skora Kvenfélögin, Kiwanis, Lions, Oddfellow og Frímúrara að leggja málinu lið.
Þarna er enn eitt dæmið um hvað við komum illa fram við þá sem minnst mega sín og þá sem ekki verja sig sjálfir. Eigum við að láta það viðgangast að fólk sé flutt nauðungaflutningum í sparnaðarskyni eða eigum við að koma þeim sem ekki geta varið sig sjálfir til hjálpar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.4.2008 | 14:46
Eru veggjakrotarar listamenn eða athyglissjúkir sóðar?
Hvað veldur Því að fólk fer um að næturlagi til þess eins að krota á veggi? Er þarna um að ræða svo ríka sköpunarþörf að öll skynsemi rýkur út í veður og vind eða er þetta mótmæli eða jafnvel einhverskonar pissukeppni?
Ég get vel viðurkennt það að mér finnast sumar myndir á veggjum flottar, eða kannski er betur við hæfi ég að segja drulluflottar. Mér finnst aftur á móti ekkert flott við krot eða merki sem athyglissjúkir óþekktarormar krassa á veggi út um alla borg. Ég get alls ekki séð að einhver hafi rétt til að mála eða skreyta veggi sem þeir eiga ekkert í. Mér finnst skrítið að sumum þyki þetta sniðugt og jafnvel allt í lagi.
Stundum er því haldið fram að þessi hegðun spretti fram hjá þeim sem hafa ríka sköpunarþörf og að það sé afsökun fyrir framferðinu. Ég get alls ekki fallist á það. Ætti þá rithöfundurinn með ríku sköpunarþörfina að fá að krota í allar bækur sem hann kemst í tæri við? Eða kannski prjónakonan duglega og listræna í næstu götu, mætti hún prjóna stórann poka fastann utan um bílinn minn? Ég fæst stundum við mosaik og hef ríka sköpunarþörf, þætti einhverjum í lagi ef ég læddist um bæinn næturlangt og smellti nokkrum flísum á veggi og torg af því ég réði ekki við mig?
Þó fólk sé svo lánsamt að hafa fengið mikla sköpunarþörf í vöggugjöf er það ekki undanþegið almennum kurteisisvenjum og virðingu fyrir öðru fólki eða eigum annarra.
Röktu slóð krotaranna frá miðborg upp í Hlíðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.4.2008 | 00:35
Systurnar fóru úr sveitinni en sveitin fór ekki úr systrunum
Eitt af því sem erfitt er að vaxa upp úr er búmennska. Þegar við systurnar frá Alviðru vorum litlar áttum við alltaf kindur og eigum enn þó við séum allar fluttar á mölina og farnar að sinna öðrum málum. Á dögunum skruppum við saman í sveitina að líta eftir búpeningnum. Sirrý, elsta systir mín á eina mórauða sem hún þóttist hafa valið eftir búfræðilegum aðferðum, mig grunar þó að hún hafi bara valið þessa stærstu. Giddý fór þó sannarlega akademískt í málið, valdi ættbókarfærðan þrílembing frá Mýrum. Ég var eitthvað sein fyrir og hafði alveg gleymt að eigna mér kind, það mál leystist af sjálfu sér í þessari heimsókn.
Ég valdi þessa stóru, feitu, femínisku og hárprúðu. Hún er ekki enn borin og grunar fólk að hún sé jafnvel geld. Það þykir bændum sauðsvört óhlýðni og ósvífni af verstu sort, en mér finnst það femínískt. Það verður að hafa það þó ég þurfi að hafa fisk í matinn í haust. Núna á ég einu femínísku kindina á Íslandi sem þar að auki er stærri en hrúturinn, sem þykir nokkuð gott. Ég læt fylgja með nokkrar myndir og bendi hvet ykkur sem ekki eruð svo lánsöm að eiga athvarf í sveitinni að kíkja inn á kindur.is þar er hægt að fá sér kind.
þarna er hún Sirrý stolt og glöð með Móru sína og lömbin.
Giddý er ekki síður ánægð með skræpóttu lömbin hennar Golsu sinnar.
Þessi hægra megin er Móra stóra femínisti og sauðkind, glöggt má sjá að hún kemur vel undan vetri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.4.2008 | 16:00
Svona lækka menn bensínverðið, eða hvað?
Halda einhverjir að það að kasta grjóti í vinnandi fólk muni lækka bensínverð?
Halda einhverjir að tal um valdníðslu geti verið afsökun fyrir svona hegðun?
Héldu einhverjir að það yrði látið viðgangast að loka vegum í mótmælaskyni?
Grjótkastari segir lögreglu hafa sýnt valdníðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
22.4.2008 | 16:48
Hvað viljið þið bloggarar?
Hópur bloggara hefur tekið sig saman og langar að bjarga okkur Vestfirðingum. Í fljótu bragði gæti fólk haldið að við værum í hættu, jafnvel bráðri hættu. Þetta er nú svona og svona. Ég á sjálfsagt ekkert með að gera grín að þessu og skal viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér allt sem frá þessum hóp er komið. Ég las aftur á móti frétt á bb.is þar sem haft er eftir Jakobi Kristinssyni,sárreiðum að því er virðist, að við höfum ekki áhuga á að leggja þessum samtökum bloggara um að bjarga Vestfjörðum lið. Hann vænir okkur um að hafa meiri áhuga á olíuhreinsunarstöð. Svei.
Ég veit ekki annað en að við Vestfirðingar séum upp til hópa hið duglegasta fólk sem gerir það sem þarf til að bjarga okkur. Stundum gæti fólk þó haldið að allt sé að fara hér til andskotans. Þó okkur hafi fækkað og blikur séu á lofti þykir fæstum okkar ástæða til að leggjast flöt og bíða eftir björgunarsveitinni. Okkur finnst líklega flestum að við eigum rétt á öruggu rafmagni, öruggum samgöngum í lofti, á þjóðvegum og á internetinu. Þetta vilja allir landsmenn og þetta er hluti af þeim grunni sem við byggjum okkar atvinnulíf á. Ef grunngerðin er í lagi verður allt annað í lagi.
Ég frábið mér björgunarleiðangra brottfluttra, ég vil ekki láta bjarga mér ég vil að rétt sé gefið svo ég geti bjargað mér sjálf.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)